Íslenski boltinn

Kennie Chopart yfirgefur íslenska boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kennie Chopart í leik með Stjörnunni.
Kennie Chopart í leik með Stjörnunni. Vísir/Arnþór
Kennie Chopart spilar ekki áfram með Stjörnunni í Pepsi-deild karla en þessi kraftmikli og skemmtilegi kantmaður ætlar nú að reyna fyrir sér í norsku C-deildinni.

Kennie Chopart hefur samið við norska C-deildarliðið Arendal sem er í suður Noregi og endaði í fimmta sæti í norsku 2. deildinni á síðustu leiktíð. Þetta kemur fram á agderposten.no en félagið samdi einnig við Danann Jakob Rasmussen sem er miðjumaður.

Kennie Chopart er búinn að spila tvö ár í Stjörnunni. Hann var með 3 mörk og 5 stoðsendingar í 17 leikjum í Pepsi-deildinni 2013 og árið á undan skoraði hann 5 mörk og gaf 5 stoðsendingar í 22 leikjum í Pepsi-deildini.

Chopart er 23 ára gamall, fæddur 1990, en hann lék með danska liðinu Esbjerg fB áður en hann skellti sér til Íslands. Hann hefur spilað út um allan völl hjá Stjörnunni en oftast sem kantmaður eða vængbakvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×