Innlent

Ásdís Olsen handtekin í Rússlandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásdís var á ráðstefnu um jákvæða sálfræði þegar hún upplifði áfallið.
Ásdís var á ráðstefnu um jákvæða sálfræði þegar hún upplifði áfallið. mynd/ vilhelm.
Ásdís Olsen aðjúnkt var handtekin og sett í stofufangelsi í Rússlandi á sunnudaginn þegar hún var í vegabréfsskoðun á leiðinni heim. Landvistarleyfið hennar hafði runnið út fyrir mistök því einhver ágalli hafði verið á vegabréfinu. Ásdís segir að upplifunin hafi verið hryllileg og að landamæraverðir í Moskvu hafi komið fram við sig eins og úrhrak.

„Mér var nú ekkert haldið lengi en mér var haldið það lengi að ég missti af fluginu og var ein að finna út úr þessu án þess að vita í hvorn fótinn ég átti að stíga. Þetta kostaði mig um hundrað þúsund kall því ég þurfti að kaupa öll flugin upp á nýtt og borga fyrir nýtt visa og svona," segir Ásdís. Mestu óþægindin í þessu hafi þó verið að þurfa að hlaupa á milli án nokkurar leiðsagnar. Það hafi verið lítil hjálp í Rússum. Ásdís komst þó til Kaupmannahafnar síðar um kvöldið og þaðan komst hún til Íslands í gær. Þegar hún var á leið í flugvélina á Kastrupflugvelli í gær fann hún einkenni áfallastreitu. „Þá fann ég fyrir blackouti og þá áttaði ég mig á því að ég er ekki búin að vinna úr þessu," segir Ásdís í samtali við Vísi.

Ásdís var á ráðstefnu í jákvæðri sálfræði í Rússlandi og var búin að vera í viku þegar hún sneri heim. Hún segist ekki ætla til Rússlands í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×