Skoðun

Áskorun flugmanna á flugvél Landhelgisgæslu Íslands

Flugmenn hjá Landhelgisgæslunni skrifar
Við undirritaðir sem störfum sem flugmenn á eftirlits-, leitar- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands mótmælum harðlega lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli áður en flugbraut 07/25 á Keflavíkurflugvelli er opnuð af flugöryggisástæðum, eins og kveðið er á um í fyrra samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar. Því er engin flugbraut með þessari stefnu á suðvesturhorni landsins opin, til að takast á við válynd suðvestanveður, en þar eru neyðarsjúkrahús og miðstöð almannavarna og björgunarþjónustu landsins staðsett.

Þá hörmum við það að ekkert tillit var tekið til flugöryggishagsmuna sjúkra-, leitar-, björgunar- og almannavarnaflugs við þá ákvörðun að loka flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli og óttumst afleiðingarnar af þeirri ráðstöfun þar sem oft á tíðum þarf að fara í slík neyðarflug þegar veður eru hvað verst og aðstæður hvað varasamastar, því hefur flugöryggi þeirra sem slíkt flug stunda verið skert.

Viljum við taka undir yfirlýsingu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna frá 14. júní sl. en þar segir:

Lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur verulegar áhyggjur af stöðu flugöryggismála á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 268/2016 um að íslenska ríkinu beri að loka flugbraut 06/24 innan 16 vikna. Í áhættumati varðandi lokun brautarinnar frá 22.maí 2015 er ekki tekið tillit til áhrifa á flugvallakerfið í landinu í heild sinni, fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur né það sem mestu máli skiptir þ.e. neyðarskipulags almannavarna og áhrifa á sjúkraflutninga.

Að mati FÍA er flugbraut 06/24 í Reykjavík nauðsynlegur hluti af vellinum til að tryggja nýtingarhlutfall í ljósi mikilvægis vallarins til sjúkra- og neyðarflutninga.

Verði flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli lokað er óviðunandi að ekki liggi fyrir ákvörðun um að opna á Keflavíkurflugvelli flugbraut með svipaða stefnu, sem staðið hefur lokuð í áraraðir. Mikilvægt er að flugbraut með stefnu suðvestur/norðaustur sé til staðar á Suðvesturlandi.“

Við undirritaðir förum fram á að samningar standi þannig að flugbraut 07/25 á Keflavíkurflugvelli verði opnuð án tafar og að flugbraut 06/24 í Reykjavík verði í að minnsta kosti opin fram að þeim tíma.

Jakob Ólafsson

Hafsteinn Heiðarsson

Garðar Árnason

Hólmar Logi Sigmundsson

Ívar Atli Sigurjónsson

flugmenn hjá Landhelgisgæslu Íslands




Skoðun

Sjá meira


×