Innlent

Átta heilræði CNN um hvernig á að vera svalur á Íslandi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Unnsteinn úr Retro Stefson (t.v.) var tökuliði CNN innan handar á Íslandi.
Unnsteinn úr Retro Stefson (t.v.) var tökuliði CNN innan handar á Íslandi. mynd/getty
Eins og greint var frá í morgun fjallar CNN ítarlega um Reykjavík í nóvember. Meðal greina sem birtust á ferðavef CNN er greinin How to be a Reykjaviker: 8 ways to be cool in Iceland, en þar er að finna átta heilræði fyrir þá sem vilja vera svalir á Íslandi.

Fyrsta heilræðið er að vera ekki feiminn við að klæða sig vel. Mælt er með því að blanda saman hlýjum fatnaði og litríkum klæðnaði, oft kenndan við svokallaða hipstera, og þá er sérstaklega minnst á lopapeysuna. „Snag a lopapeysa, a traditional Icelandic sweater,“ segir í greininni, og er það haft eftir bloggaranum Auði Ösp að lopapeysur séu eins íslenskar og mögulegt er.

Þá er mælt með því að stilla sig inn á þurrt skopskyn frónverja, og segir blaðamaður að ómögulegt sé að greina á milli þess þegar Íslendingur segir brandara og þegar hann er að tala í alvöru.

Hið sívinsæla pottaspjall er til umfjöllunar í greininni, og þar er fullyrt að borgarbúar séu afar hrifnir af því að spjalla um málefni líðandi stundar í heitum pottum sundlauganna. Skipti þá engu máli þó þeir þekkist ekki neitt.

Efnahagshrunið og aðdragandi þess vekur einni athygli blaðamanns, og þá sérstaklega sú venja að segja að eitthvað sé „svo 2007“. Tekið er dæmi um setningu sem líklegt væri að heyra á Íslandi: „Ólafur’s new silver-plated beard trimmers are so 2007.”

Heilræðin átta má lesa í heild sinni á vef CNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×