Skoðun

Auðlindir og eignarnám

Magnús Orri Schram skrifar

Ennþá virðist sá misskilningur vera fyrir hendi að orkuauðlindir þjóðarinnar séu að einhverju leyti í einkaeigu. Það er rangt og var sérstaklega tryggt í löggjöf árið 2008. Umræðan um orkuauðlindirnar á hins vegar að snúast um nýtingu þeirra. Ég tel ekki sjálfgefið að opinberir aðilar sjái um nýtingu á orkuauðlindum eða öðrum auðlindum eins og til dæmis auðlindum sjávar. Það væri óskynsamlegt að stofna Útgerðarfélag Ríkisins sem sæi um þorskveiðar í Faxaflóa, og því er það ekki sjálfgefið að best væri að opinberir aðilar sjái um að bora eftir jarðgufu við Svartsengi.

Miklu betri leið til að tryggja almannahagsmuni er að stytta lengd nýtingarsamninga við einkaaðila niður í 35 ár í stað 65 ára, og að tryggja að þjóðin fái góðan arð af nýtingu auðlindanna. Þannig á nálgast samningaviðræður við HS Orku en alls ekki að fara í eignarnám. Það er nefnilega svo að eignarhald orkuvinnslunnar eitt og sér tryggir hvorki að arður af auðlindunum renni til þjóðarinnar, né að fylgt sé orkunýtingarstefnu með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þá er líka ósvarað hvort æskilegt sé að skattgreiðendur skuli bera áhættu af fjárfestingu í orkuvinnslu fyrir stöku stóriðjuverkefni.

Lykilatriðið á að vera þetta: Við eigum að tryggja þjóðinni eðlilegan arð af nýtingu auðlindanna og ef einkaaðilar sjá um nýtinguna, þá eru þeir einungis með tímabundinn nýtingarrétt til 35 ára. Slíkar reglur eiga að gilda hvort sem um er að ræða jarðgufu, vatnsfall eða fisk í sjó. Þannig eigi að gilda sömu reglur um orkuauðlindir og auðlindir sjávar.






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×