Viðskipti innlent

Auðmenn virðast njóta sérkjara í bönkunum

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Svo virðist sem auðmenn njóti sérkjara hjá íslenskum bankastofnunum. Umboðsmaður skuldara segir svokallaða kyrrstöðusamninga ekki þekkjast sem úrræði í almennum bankaviðskiptum. Engu að síður hafa Björgólfur Thor og eigendur fjárfestingarfélagsins Gaums fengið slíka samninga.

Fréttastofa Ríkissjónvarpsins greindi frá því í gær að Arion banki hefði gert samkomulag við fjárfestingarfélagið Gaum og Jóhannes Jónsson kaupmann um að ekki yrði höfðað mál gegn honum, svokallaðan kyrrstöðusamning, en áður hafði fréttastofa Stöðvar 2 greint frá því að Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, hefði gert samkomulag við innlenda lánardrottna sína um að ekki yrði gengið að persónulegum ábyrgðum hans.

Orðið kyrrstöðusamningur, sem er þýðing á enska hugtakinu „stand-still agreement." Hugtakið þekkist ekki í íslenskri lögfræði en umboðsmaður skuldara hefur ákveðið að rita lánardrottnum fjárfestingarfélagsins Gaums og Björgólfs Thors Björgólfssonar bréf til að óska eftir skýringum.

Um er að ræða samkomulag um að höfða ekki mál og fullnusta ekki ákvæði í áður gerðum samningum. Í sinni einföldustu mynd þýðir þetta að bankinn gengur ekki að skuldaranum og krefst greiðslu. Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir að við fyrstu sýn sé um að ræða úrræði sem þekkist almennt ekki í íslensku viðskiptalífi. Samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara getur umboðsmaður óskað eftir upplýsingum hjá fyrirtækjum um öll mál og er þeim skylt að svara erindi embættisins.

„Ég sá þessa frétt og hún vekur miklar spurningar um þessi vinnubrögð. Og ég tel að þetta sé eitthvað sem þarf að skoða," segir Ásta Sigrún. Hvernig hyggstu beita þér í málinu? „Það sem ég mun gera er að senda skriflega fyrirspurn til Arion banka og Landsbankans um þessa kyrrstöðusamninga, hvers eðlis þeir eru, eru einstaklingar sem njóta þessara kjara og ég mun óska eftir skriflegum svörum."

Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum fjárfestingarfélagsins Gaums er samkomulag eigenda fyrirtækisins við Arion banka í samræmi við sambærilega samninga sem gerðir hafa verið við fyrirtæki sem sæta fjárhagslegri endurskipulagningu í íslensku viðskiptalífi.















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×