Innlent

Auglýst eftir 10 landamæravörðum vegna fjölda farþega

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/ANTON
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur auglýst 10 ný störf landamæravarða hjá embættinu laus til umsóknar. Það er gert vegna mikillar fjölgunar farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll.

Farþegum á leið um völlinn fjölgaði um 15 prósent í fyrra frá því árið áður.

Lögreglan ákvað í samráði við hagsmunaaðila að í ljósi þess hversu mikil fjölgun farþega um völlinn er, að ráða landamæraverði sem ekki eru menntaðir lögreglumenn. Lögreglan hefur að meginhluta til sinnt þessu starfi frá árinu 2001.

Lögregluyfirvöld í Noregi og Svíþjóð hafa um langt árabili haft landamæraverði í þjónustu sinni við landamæraeftirlit og er reynsla af því fyrirkomulagi talin góð. Ekki er verið að fækka lögreglumönnum með þessum breytingum heldur auka sveigjanleika í rekstri flugstöðvardeildar lögreglunnar.

Landamæraverðir þurfa að uppfylla ákveðnar hæfniskröfur, svo sem að vera íslenskir ríkisborgarar, hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, standast bakgrunnsskoðun flugverndar, vera andlega og líkamlega heilbrigðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×