Skoðun

Ávarp á alþjóðaleiklistardaginn 2014

Jón Atli Jónasson skrifar
Það var rúmenska leikskáldið Eugéne Ionesco sem sagði að leiksviðið væri staður þar sem manneskjan mætti sjálfri sér. Það sem er í húfi við þau kynni, mín orð ekki hans, er reynslan sem má draga af þeirri viðkynningu.

Við hittum okkur sjálf á sviðinu. Stundum í líki fljúgandi barnfóstru eða sjómanns sem syndir í átt að eyju í Norður-Atlantshafinu. Það er frásögnin af manneskjunni sem dregur okkur í leikhúsið. Baráttan sem hún stendur andspænis, afdrif hennar og örlög.

Síðustu vikur hefur heimsbyggðin beðið frétta af örlögum rúmlega 240 sálna sem voru um borð í flugi MH370 sem hvarf þann áttunda mars síðastliðinn. Líklega hefur flugvélin hrapað og allir um borð farist með henni. Ef tekst að finna svarta kassa flugvélarinnar verður hugsanlega hægt að varpa meira ljósi á örlög þeirra sem voru um borð. Svarti kassinn er tæki sem skráir niður upplýsingar um flugið og það sem er sagt um borð í flugstjórnarklefanum. Hann gegnir eingöngu því hlutverki um borð í vélinni. Þetta er ekki tæki sem nýtist að öðru leyti við að fljúga henni. Svarti kassinn skrásetur og flytur frásagnir.

Við verðum ekki í rónni fyrr en við vitum hver örlög þessa fólks um borð í flugi MH 370 urðu því hluttekningin er okkur eðlislæg þrátt fyrir að það kunni að stangast á við sinnuleysi tímanna sem við lifum. Leit að líkum farþega, braki og ekki síst svarta kassa flugs MH 370 stendur nú yfir á Indlandshafi. Líkurnar á því að nokkuð finnist eru litlar. En við leitum samt.

Leikhúsið er líka svartur kassi. Þar sem orð er gert af anda og andi af lífi. Það skrásetur og flytur frásagnir. Það leitar uppi manneskjuna í þeim ásetningi að verða vitni að gleði hennar, sorg og sigrum. Að fundi hennar við sjálfa sig. Það er hlutverk leikhússins. Hvorki meira né minna. Að halda áfram tilrauninni um manneskjuna.




Skoðun

Sjá meira


×