Bakþankar

Bágt fyrir buxurnar

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Reglulega koma upp hugmyndir þess efnis að innleiða skólabúninga í grunnskólum á Íslandi og sumstaðar eru notaðir skólabúningar í einhverri mynd. Kostir þess að allir nemendur í skólanum séu eins klæddir eru jafnan sagðir þeir að krökkum verði síður strítt á því hvernig þau eru til fara og að skólabúningurinn geti einfaldað samskipti þeirra á milli. Sérstakur búningur einfaldi líka málin heima fyrir. Minni þvottur og minna slit verði á öðrum fötum á meðan. Ókostirnir eru stundum sagðir að við það að allir klæðist eins geti börnin ekki verið þau sjálf, geti ekki tjáð persónuleika sinn með því að klæða sig eins og þau sjálf vilja. Sitt sýnist hverjum.

Sjálf man ég ekki mikið eftir því að hafa mikið velt fötum fyrir mér, fyrr en á unglingsárum en þá tók líka við skrautleg tilraunastarfsemi í klæðaburði. Margar þeirra tilrauna tókust ekki vel en það sem helst truflaði þá sem reyndu að hafa vit fyrir mér voru gallabuxur, rifnar að vísu.

Þrátt fyrir að öll helstu tískuhús heims hanni og framleiði gallabuxur í dag í ýmsum sniðum virðast þær þó alltaf settar skör lægra en aðrar buxur í virðingarstiganum. Þær þykja ekki nógu fínar, eru ekki spari, jafnvel órifnar og stífstraujaðar. Kannski er það vegna þess að gallabuxur hafa löngum verið tákn verkamanna, kúreka og hafnarverkamanna, vinnubuxur í verksmiðju. Gallabuxur eru þó án efa vinsælustu buxur í heimi og varla sú kommóðuskúffa sem ekki geymir nokkur pör.

Það er bannað að vera í gallabuxum á Alþingi. Í gær fékk þingmaður bágt fyrir buxurnar en sá var akkúrat að viðra áhyggjur sínar af stöðu menntakerfisins í landinu þegar gerðar voru athugasemdir við klæðaburðinn. Þingmaðurinn lofaði auðvitað að drífa sig heim strax að ræðu lokinni og hafa buxnaskipti. Þetta var í fréttum.

Kannski mætti einfalda málin í þingsal líkt og á skólalóðinni með því að búa til sérstakan alþingisbúning, staðlaðan galla á bæði kyn svo útgangurinn á þingmönnum þvælist ekki fyrir málefnum á dagskrá.






×