Innlent

Bakarinn í fríi en Ben Stiller hefur búlluna

BBI skrifar
Mynd/GRV
„Ég er náttúrlega bara í sumarfríi af því Ben Stiller er búinn að taka bakaríið á leigu," sagði Geiri í Geirabakaríi á Borgarnesi þegar fréttastofa sló á þráðinn til hans. Ben Stiller gerði sér lítið fyrir og leigði bakaríið af honum til að umturna því og gera að pizza-staðnum Papa John's eins og sést á myndinni hér til hliðar.

Þar verða nokkrar senur úr mynd Ben Stiller, The secret life of Walter Mitty, teknar upp. Þó Geiri viti hvað mun eiga sér stað á Papa John's í myndinni vill hann ekkert gefa upp um það enda bundinn þagnareiði.

Sviðsmyndin er því sem næst tilbúin. Tökur fara fram á mánudaginn og þriðjudaginn í næstu viku. Geirabakarí mun síðan snúa aftur í sinni eðlilegu mynd á miðvikudaginn enda getur Geiri ekki hugsað sér að söðla um og starfrækja pizzastaðinn Papa John's til framtíðar, jafnvel þó öll umgjörð verði þegar komin upp. „Neinei, ég fær þetta bara í hendurnar á miðvikudaginn og get byrjað að baka aftur," segir Geiri.

Geiri mun ekki verða starfsmaður sjálfur á Papa John's í myndinni. „Það hefði nú samt verið sniðugt að hafa okkur saman. Báðir svona litlir og huggulegir. Annars er ég huggulegri en hann finnst mér," segir Geiri. Kvikmyndaunnendur munu því missa af glæsilegu tvíeyki sökum þess að Geiri ákvað að nota tímann til að fara í sumarfrí frekar en að sniglast á settinu.

Geiri segir að þessi leiga hafi átt sér langan aðdraganda. Ben Stiller og aðstoðarmenn hans ferðuðust um landið á síðasta ári í leit að tökustöðum og í kjölfar þess hófust þreifingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×