Innlent

Bann á munntóbaki leiðir ekki til aukinna reykinga

BBI skrifar
Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Landlækni, telur að þó munntóbak væri bannað myndi það ekki leiða til þess að fleiri færu að reykja. Fram hefur komið að stærsti notendahópur munntóbaks sé ungir karlmenn. „Ungir strákar reykja í mjög svipuðum mæli og ungar stúlkur. Það styður þá kenningu að munntóbaksnotkun hjá ungum karlmönnum sé viðbótartóbaksnotkun," segir hann. Því myndi bann á munntóbaki líklega ekki leiða til mjög aukinna reykinga. Þeir ungu strákar sem byrja að fikta með munntóbak hefðu mögulega ekki byrjað að reykja, að mati Viðars.

Hann tekur undir að munntóbaksnotkun ungra karlmanna sé komin í óefni og nauðsynlegt sé að bregðast við henni.

Eins og fram hefur komið telur Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, ekki útilokað að banna notkun munntóbaks eða skattleggja mjög hátt. Viðar segir að Landlæknisembættið hafi ekki myndað sér skoðun á því hvaða leið sé best að fara og vill ekki slá neina möguleika út af borðinu. Viðar segir að bráðlega verði ráðist í aðgerðir vegna vandamálsins. „En til þess þarf lagasetningar og það mun taka tíma," segir hann.


Tengdar fréttir

Kemur til greina að banna munntóbak

Velferðarráðherra hefur áhyggjur af aukinni munntóbaksnotkun og íhugar að skattleggja það hátt eða hreinlega banna það. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×