Innlent

Bannað að birta myndir á Facebook án leyfis foreldra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ekki er lögmætt að birta myndir af börnum og unglingum í skóla – eða tómstundastarfi á netinu nema heimild foreldra liggi skýr fyrir. Þetta segir formaður Persónuverndar.  Sífellt auðveldara er að nálgast upplýsingar um börn á Facebook.

Algengt er orðið að dagmömmur, leikskólakennarar, kennarar og aðrir sem koma að skóla- og æskulýðsmálum birti  myndefni af börnum og unglingum í myndaalbúmum eða grúppum á Facebook. Er þetta í flestum tilfellum gert í þeim tilgangi að deila daglegu starfi með foreldrum og forráðamönnum.

Þó að síðurnar þar sem myndnunum er dreift séu í flestum tilfellum læstar er það þó ekki alltaf raunin.  Stundum eru myndirnar sýnilegar hverjum sem er.

Mörg spurningamerki eru á lofti varðandi netöryggi og persónuvernd barna. Hörður Helgason, forstjóri Persónuverndar, segir að skýrar reglur þurfi að vera um myndbirtingar barna  á samfélagsmiðlum. Foreldrar verði að gefa leyfi fyrir slíku.

„Við höfum fengið fjölda fyrirspurna um slík mál bæði frá foreldrum og starfsfólki. Fólk þarf að stíga varlega til jarðar í þessum málum. Þegar myndirnar eru settar inn á Facebook eru þær þar til frambúðar,“ segir Hörður.

Hann telur notkun á samfélagsmiðlum eins og Facebook, sem safna saman persónuupplýsingum og reknir eru í viðskiptatilgangi, ekki stemma við þá persónuvernd sem ung börn í skyldunámi eiga að hafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×