Innlent

Barn fann amfetamín í leikskólanum

Fimm ára drengur fann í febrúar poka með amfetamíni á leikskólanum Jörfa. Nóg til að valda barni alvarlegum skaða, segir prófessor í eiturefnafræði. Foreldrar fréttu fyrst af málinu í gær og eru ósáttir.

Fimm ára drengur fann poka sem innihélt amfetamín í fatahengi leikskólans Jörfa í febrúar síðastliðnum.

Drengurinn fann lítinn poka af hvítu dufti á gólfi fatahengisins í leikskólanum við Hæðargarð í Reykjavík en gerði sér eðli málsins samkvæmt enga grein fyrir því hvað í honum var. Hann sýndi föður sínum pokann þegar hann var sóttur og faðirinn fór þá með pokann til lögreglu, sem sendi innihaldið í efnagreiningu.

Að sögn Árna Vigfússonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, leiddi greiningin í ljós að pokinn innihélt 0,6 grömm af amfetamíni.

Árni segir ómögulegt að segja til um hvort pokinn hafi borist inn á leikskólann með foreldri eða starfsmanni, eða hvort barn hafi fundið hann utandyra og tekið hann með sér inn. Hann segir að málið hafi ekki verið rannsakað frekar.

Fréttablaðið hafði í gær samband við Svölu Ingvarsdóttur, starfandi leikskólastjóra á Jörfa, vegna málsins. Stuttu síðar barst skriflegt svar frá Sigrúnu Björnsdóttur, upplýsingafulltrúa mennta- og leikskólasviðs Reykjavíkurborgar.

Þar kemur fram að á leikskólanum Jörfa, líkt og á öðrum leikskólum borgarinnar, sé á hverjum morgni farið yfir skólalóðina og gengið úr skugga um að allt leikrými sé í samræmi við reglur heilbrigðiseftirlits um öryggi barna.

Í svarinu kemur enn fremur fram að pokanum hafi verið komið rakleiðis í hendur lögreglu og foreldrum vísað á lögreglu um frekari upplýsingar.

Svala sendi öllum foreldrum tilkynningu um málið síðdegis í gær, eftir að blaðamaður hafði samband við hana. Heimildir herma að töluverðrar óánægju gæti meðal foreldranna með að hafa ekki fengið að vita af málinu um leið og það kom upp.- sh


Tengdar fréttir

Sterkt efni getur hæglega verið banvænt

Hálft til eitt gramm af amfetamíni getur verið stórhættulegt börnum, til dæmis ef þau myndu gleypa það, að sögn Jakobs Kristinssonar, prófessors í eiturefnafræðum. Fréttablaðið spurði Jakob hvaða áhrif það gæti haft á fimm ára barn að innbyrða hálft til eitt gramm af amfetamíni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×