Innlent

Barnaníðsmálum fjölgar hjá lögreglu

Kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota gegn börnum fjölgaði um 30 prósent milli áranna 2010 og 2011. Í fyrra voru kærurnar 58 talsins en 41 árið á undan. Tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna barnaníðs fjölgaði að sama skapi á tímabilinu, úr 428 tilkynningum árið 2010 í 461 árið 2011.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir fjölgunina greinilega.

„Það er mikil aukning í þessum málaflokki," segir hann. „Ef litið er til síðustu ára hefur verið jöfn fjölgun á milli ára, það er að segja að það er stöðugt kært meira heldur en árin á undan."

Þorbjörg Sveinsdóttir, sérfræðingur í Barnahúsi, tekur undir orð Björgvins og segir málunum fjölga stöðugt milli ára. Ástæðan liggi bæði í því að fólk sé orðið óhræddara við að kæra, en hún telur að sama skapi að brotum geti hafa fjölgað á síðustu árum.

„Það eru fleiri mál sem verið er að fara með í þennan rétta farveg og þau eru tekin fastari tökum," segir hún. „En eitthvað af þessu getur líka skrifast á fjölgun mála." Þorbjörg segir kynferðisbrotum gegn börnum greinilega hafa fjölgað í kjölfar hrunsins. Erfitt sé að fullyrða hvort þau verði alvarlegri milli ára, en á hverju ári komi upp mjög alvarleg tilvik.

Hún bendir einnig á að allt sem tengist barnaníði á Netinu sé nýtilkomið. Málum vegna kynferðisbrota á Netinu fjölgi gríðarlega, þá sér í lagi þeim sem tengjast áreitni og vændi hjá börnum. Um 40 prósent mála sem koma til kasta Barnahúss enda í kæru hjá lögreglu. -sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×