Innlent

Bauð níu ára dreng í Kópavogi upp í bíl á þeim forsendum að móðir hans hefði lent í umferðarslysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Drengurinn var á leiðinni í Snælandsskóla í morgun.
Drengurinn var á leiðinni í Snælandsskóla í morgun. Mynd af vef Já.is
Níu ára drengur á leiðinni í Snælandsskóla brást hárrétt við í morgun þegar ókunnugur maður á svörtum jepplingi náði af honum tali. Að sögn piltsins sagði hann honum að móðir drengsins hefði lent í umferðarslysi og bauð honum upp í bílinn. Drengurinn féll ekki fyrir tilraun mannsins, hljóp í skólann og tilkynnti málið til skólastjóra.

„Hann stóð sig eins og hetja,“ segir Magnea Einarsdóttir, skólastjóri í Snælandsskóla. „Hann vissi hvað hann átti að gera.“

Magnea segir að haft hafi verið samband við móður drengsins um leið, svo lögregluna og loks var póstur sendur á foreldra allra barna í skólanum. Þá hafi kennarar farið yfir málið með nemendum sínum „án þess þó að búa til einhverja skelfingu á staðnum“ að sögn Magneu.

Drengurinn segir að um svartan jeppling hafi verið að ræða en gat ekki gefið lýsingu á manninum því hann sá ekki almennilega framan í hann. Magnea segist ekki muna eftir sambærilegu dæmi í hverfinu undanfarin ár. 

Málið er á borði lögreglunnar í Kópavogi. Foreldrar eru hvattir til að minna börn sín á að fara aldrei upp í bíl með ókunnugum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×