Innlent

Belja í bullandi vandræðum: „Líklega hefur hún séð eitthvað sem hana langaði í ofan í fötunni“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá beljuna.
Hér má sjá beljuna.
Bræðurnir Arnar Már og Elvar Örn Ármannssynir sáu kvígu með fötu fasta á höfði sínu rétt fyrir utan Húsavík um helgina. „Já, við vorum þarna í sumarhúsi sem fjölskyldan á í sveitinni,“ segir Arnar og heldur áfram: „Okkur var litið út um gluggann og þar sáum við greyið. Líklega hefur hún séð eitthvað sem hana langaði í ofan í fötunni, með þessum afleiðingum.“

Kvígan tilheyrir bóndanum á Gömlu skriðu.

Bræðurnir hlupu út ásamt föður sínum og reyndu að hjálpa kvígunni. „Já, við vorum auðvitað hálfhlæjandi en á sama tíma vorkenndum við henni og vildum koma henni til bjargar.“

Kvígan var mjög stygg og hljóp um. Bóndinn á Gömlu skriðu mætti svo á staðinn með reipi og náði að halda höfði hennar á meðan þeir losuðu fötuna af höfði kýrinnar. „Þetta fór allt vel og henni varð ekki meint af, greyinu. Hún er í fullu fjöri núna, við beljuheilsu, ef svo má segja,“ bætir Arnar Már við og hlær.

Hér að neðan má sjá myndband af atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×