Innlent

Berfættur í brunagaddi

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Kristófer Kvaran við heimili sitt á Leifsgötunni á leið til vinnu, berfættur þrátt fyrir kuldann því honum finnst skilyrðin góð.
Kristófer Kvaran við heimili sitt á Leifsgötunni á leið til vinnu, berfættur þrátt fyrir kuldann því honum finnst skilyrðin góð. vísir/Vilhelm
„Ég er eiginlega alveg hættur að fara í skó,“ segir Kristófer Kvaran, tónlistarmaður og starfsmaður á leikskóla. Kristófer vekur athygli samferðamanna sinna þar sem hann gengur um borgina berfættur í frostinu. „Skilyrðin eru góð ef ég er að ganga rösklega frá einum stað til annars. En ef ég er á rólegu rölti og það er mikið af krapi og salti á götum þá bregð ég mér í þæfða ullarsokka. Þeir eru bestir og slitna síður. Ég er með þá í vasanum ef ég þarf á þeim að halda.“ 

Kristófer er tónlistarmaður og starfar í leikskóla við umönnun barna. „Ef ég er að spila í brúðkaupi þá fer ég í sokka og spariskó til að verða nú ekki miðdepillinn í athöfninni. En ég er svo fljótur að rífa mig úr þeim þegar starfinu er lokið. Eins í leikskólanum, þegar ég er að gæta barnanna úti, stundum þarf ég að fara í stígvél þótt oftast dugi ullarsokkarnir. Svo fór ég líka í skó um daginn þegar ég gekk á Esjuna á gamlárskvöld. Annars hef ég farið á Esjuna berfættur.“

Hann fór að sleppa skóm fyrir nokkrum árum þegar hann gerði tilraunir með að hlaupa berfættur. „Það var í ágústmánuði fyrir nokkrum árum að ég byrjaði að hlaupa berfættur. Ég sleppti skóm þennan mánuð til að safna siggi. Svo vatt það upp á sig. Til þess að byrja með var ég að fara í skó hörðustu vetrarmánuðina. En ég er stöðugt að ögra mér og finna mörkin.“

Kristófer verður stundum fyrir aðkasti vegna þess að hann er berfættur. „ Flestum finnst þetta bara skemmtilegt en sumir horfa á mig af hneykslan. Mér finnst leiðinlegt ef fólk er að flissa og taka myndir af mér í laumi. Ég er nefnilega alveg til í að sitja fyrir á mynd.“

Honum finnst gott að finna tengingu við jörðina. „Maður verður háður því að vera sjálfur neðsti punkturinn. Um leið og ég er kominn í skó þá missi ég tenginguna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×