Innlent

Biður samkynhneigt fólk um fyrirgefningu

Séra Karl biðst fyrirgefningar á orðum sínum um áhrif þess að leyfa hjónaband samkynhneigðra. Hann hafi ekki ætlað sér að særa samkynhneigða. Biskup hafi „tekið afstöðu með hefðinni“ en íslenskt samfélag vilji breytingar.
Séra Karl biðst fyrirgefningar á orðum sínum um áhrif þess að leyfa hjónaband samkynhneigðra. Hann hafi ekki ætlað sér að særa samkynhneigða. Biskup hafi „tekið afstöðu með hefðinni“ en íslenskt samfélag vilji breytingar.

Biskup Íslands hvetur fólk til að horfa fram á veginn og taka höndum saman um stofnunina hjónabandið, í ljósi þess að Alþingi hefur nú breytt hjúskaparlögum og leyft hjónaband samkynhneigðra.

Hann biðst fyrirgefningar vegna orða um hjónaband samkynhneigðra, sem hann lét falla árið 2006. Þá sagði hann að ef hjónabandið yrði ekki lengur skilgreint sem hjónaband karls og konu væri eitthvað nýtt orðið til og hið sígilda hjónaband „afnumið“. Hugtakinu væri þar með hent á sorphaugana.

„Orð mín í hita leiksins hafa valdið sárum og ég biðst fyrirgefningar á því,“ segir séra Karl Sigurbjörnsson. Mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan.

„Þetta var tilvísun í að verið væri að gjörbreyta stofnun sem á sér mjög fornar rætur og skilgreiningu. Það var út af fyrir sig óheppilega orðað, eins og ýmsar athugasemdir sem falla í hita leiksins,“ segir biskup. Of mikið hafi verið gert úr þessum orðum sínum.

Spurður hvort hann hafi skipt um skoðun og telji ekki lengur að hjónabandið bíði hnekki við það að samkynhneigðir taki þátt í því, segir Karl að sitt sýnist hverjum um niðurstöðu Alþingis.

„Ýmsir, þar á meðal ég, vildu halda í hefðina. Ég var oft í vafa um hvað væri rétt og rangt í þessum efnum,“ segir hann. Á endanum hafi Karl „tekið afstöðu með hefðinni“. Hann hafi talið það skyldu sína. „En íslenskt samfélag vildi það ekki, heldur vildi breyta þessari hefð og þessari skilgreiningu,“ segir biskup.

Karl leggur áherslu á að hann hafi með orðum sínum ekki ætlað að særa samkynhneigða. Af og frá sé að hann hafi viljað standa gegn þeim í réttindabaráttu þeirra.

„En nú er komin niðurstaða og skiptir miklu máli að við tökum höndum saman um að styðja við hjónabandið og fjölskyldurnar í landinu. Þetta er elsta stofnun mannlegs samfélags og það skiptir miklu máli að fólk vill festa ráð sitt og standa við sínar dýrmætustu skuldbindingar. Það er aðalmálið,“ segir biskup.

klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×