Tónlist

Biophilia fyrir alla snjallsíma

björk Björk Guðmundsdóttir heldur ótrauð áfram með Biophilia-verkefnið sitt.
björk Björk Guðmundsdóttir heldur ótrauð áfram með Biophilia-verkefnið sitt.
Björk Guðmundsdóttir ætlar að laga Biophilia-verkefnið sitt að stýrikerfinu Android og reyna að setja það í loftið á næsta ári. Þetta þýðir að Biophilia-öppin verða fáanleg fyrir alla snjallsíma, ekki bara fyrir iPhone og iPad.

Hugsanlega verður safnað fyrir verkefninu í gegnum söfnunarsíðuna Kickstarter.com þar sem almenningur getur látið fé af hendi rakna til verkefnisins. „Þetta kostar svo rosalega mikið. Við vildum gera þetta strax í byrjun en gátum það ekki vegna þess að þetta var svo dýrt. Við hefðum þurft átta forritara í sex mánuði til að gera þetta," segir Björk og bætir við að Biophilia hafi aldrei verið hugsað eingöngu fyrir ríka krakka.

Hún er mjög ánægð með viðbrögðin sem hún hefur fengið við öppunum sem hún bjó til í kringum lögin á plötunni og námskeiðunum sem hafa fylgt í kjölfarið. „Við erum búin að fá viðbrögð frá fátækum hverfum í Afríku og Asíu þar sem enginn er með iPhone. Þetta er draumurinn, að allir geti notað þessi öpp, og þetta gæti gerst á næsta ári," segir hún. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×