Innlent

Biskup segir ráðherra fara gegn frelsi skoðana

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Samtökin 78 vilja tryggja mannréttindi samkynja para sem vilja gifta sig í kirkju.
Samtökin 78 vilja tryggja mannréttindi samkynja para sem vilja gifta sig í kirkju. Vísir/Andri Marínó
„Þegar prestar gegna opinberum skyldum eins og nú er, enda hefur hjúskaparvígsla lögformlegar afleiðingar, tel ég að þeir geti ekki hafnað að gefa saman pör á grundvelli kynhneigðar þeirra. Verði hins vegar breytingar þar á, og sú athöfn verði einungis blessunar­athöfn, eigi önnur sjónarmið við,“ svarar Ólöf Nordal innanríkisráðherra spurð hvort hún telji eðlilegt að hjúskaparlög séu skoðuð sem sérlög gagnvart lögum um opinberar skyldur og réttindi starfsmanna ríkisins. Lög sem leggja bann við að opinberir starfsmenn mismuni almenningi.

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup.Vísir/GVA
„Með þessari yfirlýsingu innanríkisráðherra er komin upp alveg ný staða í málinu. Ef frelsi skoðana og sannfæringar sem stjórnarskráin tryggir gildir ekki hér, gildir það ákvæði þá nokkurn tíma?“ spyr starfandi biskup og vígslubiskup, Kristján Valur Ingólfsson, og segir Þjóðkirkjuna munu fara fram á að allri óvissu um málið verði eytt.

Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður Samtakanna 78, segist geta verið sammála Kristjáni Valum það eitt að það þurfi að eyða óvissu í málinu. 

Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður Samtakanna 78.vísir/gva
„Það væri mjög til bóta. Annars stend ég við fyrri málflutning minn. Þetta er grundvallar­prinsipp og getur ekki verið óhreyft í lögum. Það skiptir ekki máli hversu fáir mögulega hafna samkynja pari um hjónavígslu, það sem skiptir máli er að heimildin sé ekki til staðar í lögum. Þannig er það nú.“

Frumvarp til breytingar á lögum er ekki á þingmálaskrá innanríkisráðherra fyrir komandi vetur í þinginu. Umræðan þykir Ólöfu hins vegar tilefni til að farið verði yfir þessi mál. 

Annars vegar hjá kirkjunni sjálfri, að hún hafi skýra afstöðu og jafnframt að löggjöfin sé skýr um þessi réttindi. Ólöf mun leita eftir tillögum biskups við setningu reglna um það hvenær prestum sé skylt eða eftir atvikum heimilt að framkvæma hjónavígslu. „Reglur um það hafa ekki verið settar, en aðkoma biskups að þeim reglum byggir væntanlega á sjálfstæði þjóðkirkjunnar sem trúfélags. Hins vegar telur ráðuneytið að tilefni sé til að kalla eftir tillögum frá biskupi um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt."

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.vísir/ernir
Ólöf lagði fram breytingartillögu í allsherjarnefnd þegar ný hjúskaparlög voru til umfjöllunar þingveturinn 2009-2010 þess efnis að festa það í lög að prestum yrði aldrei skylt að framkvæma hjónavígslu gegn trúarlegri sannfæringu sinni. Hún segir nefndarálitið lagt fram þegar verið var að breyta lögum og búa til ein hjúskaparlög.

„Ýmis álitamál voru uppi í þeirri umræðu, m.a. það að misræmi væri á milli laga þegar litið var til borgaralegra vígslumanna og trúarlegra. Sú skylda var lögð á borgaralega vígslumenn að gefa ávallt saman meðan slíkt var ekki eins afdráttarlaust þegar litið var til trúarlegra vígslumanna. Í nefndaráliti meirihlutans kom fram að hann taldi ekki unnt að leggja skyldu presta að gefa saman hjón þar sem það gæti farið í bága við réttindi viðkomandi presta."

Ólöf nefnir einnig að þá hafi komið til umræðu hvort trúarlegir vígslumenn ættu yfirleitt að geta gefið hjón saman í lögformlegan gerning. „Hvort rétt væri að stíga það skref að trúarleg vígsla væri blessunarathöfn en hin lögformlega væri alltaf borgaraleg, þ.e. hjón yrðu að láta skrá sig hjá yfirvaldi og gæti þá í kjölfarið valið blessunarathöfn trúfélags.“ 


Tengdar fréttir

Samviskufrelsi presta bull, trúarbrögð ekki æðri mannréttindum

Séra Hildur Eir Bolladóttir segir samviskufrelsi presta bull. Í Fréttablaðinu í dag segir vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup, Kristján Valur Ingólfsson, að samviskufrelsi presta sé stjórnarskrárvarinn réttur og meðal dýrmætustu mannréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×