Innlent

Bjargvætturinn fann á sér hvar barnið var að finna

Snærós Sindradóttir skrifar
„Ég fór bara strax af stað og sagði við pabbann að ég skyldi finna barnið og það gerði ég,“ segir Sigurbjörg Hoffritz, starfsmaður á leikskólanum Rjúpnahæð í Kópavogi, sem fann tveggja ára barn sem ekið var burt á stolnum bíl á fjórða tímanum í gær. Allt tiltækt lið lögreglu var kallað á staðinn og þyrla Landhelgisgæslunnar notuð við leitina.

Sigurbjörg segist hafa fundið á sér að bílnum hefði verið ekið í Krónuna skammt frá. „Ég er nú svo mikill þverhaus að ég læt ekkert svona fram hjá mér fara. Þegar ég fann bílinn og barnið veifaði ég til þyrlunnar.“

Bíllinn var enn í gangi fyrir utan verslunina og var lagt skakkt í stæði. Sigurbjörg drap á bílnum og hringdi í lögregluna. „Barnið var bara steinsofandi. Hann svaf svo vært að ég var ekkert að vekja hann,“ segir Sigurbjörg.

Maðurinn sem stal bílnum fór ekki langt á honum.vísir/Loftmyndir.is
„Mér fannst þetta rosalega óþægilegt. Þegar þú ert að vinna á svona stað og eitthvað svona gerist þá hugsar þú ekkert heldur bara gerir það sem þú getur. Ég bara fann það á mér að hann hefði farið niður í Krónu. Þegar maður er að passa börn þá hefur maður radarinn alls staðar. Ég hugsaði bara að sá sem tók barnið hlyti að hafa verið svangur og þyrstur svo hann hefði bara skellt sér í Krónuna.“ 

Sigurbjörg er búin að vinna á leikskóla í á þrettánda ár. Hún segir þetta eftirminnilegasta vinnudaginn til þessa. „Eins og ég sagði við lögregluna þá læt ég ekkert stela barni af mínum leikskóla.“

Þó að Sigurbjörg hafi fengið kærar þakkir fyrir hetjudáðina hefur henni þó ekki verið boðið frí úr vinnunni. „Elskan mín, ég mæti bara eins og venjulega.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. ágúst 2016


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×