Innlent

Bjarni og Sigurður Ingi hafa þangað til í fyrramálið að skýra stöðu mála

Kolbeinn Tumi Daðson skrifar
Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis, rétt áður en hann gekk á fund forseta Íslands í gær.
Einar Kristinn Guðfinnsson forseti Alþingis, rétt áður en hann gekk á fund forseta Íslands í gær. Vísir/anton
Forseti Alþingis féllst ekki á kröfu stjórnarandstöðunnar að þing kæmi saman strax í dag. Fundur verður 10:30 í fyrramálið þar sem Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson verða til svara um stöðu mála í viðræðum þeirra um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf.

„Þeir geta augljóslega ekki komið til þings og útskýrt stöðuna hér,“ segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, í samtali við Vísi.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, fundaði með fulltrúum þingflokkanna í hádeginu í dag og lauk þeim fundi um stundarfjórðung fyrir klukkan eitt. Sat Helgi þann fund fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Helgi segir að farið hafi verið fram á að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem steig til hliðar í gær, verði tekin til afgreiðslu í fyrramálið.

„Því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr enn í stól forsætisráðherra. Það hefur legið inni vantrauststillaga í tvo sólarhringa, þrjá á morgun, og ekki hægt að hafa í algjörri óvissu hvort ríkisstjórnin njóti trausts í landinu.“

Aðspurður hvort honum hugnist að Sigmundur Davíð sitji áfram á Alþingi segir Helgi:

„Ég skal hafa skoðun á því þegar og af því verður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×