„Ég uppgötvaði að fólk leit ekki á kannabis sem raunverulegt fíkniefni. Það setti efnið í sérhillu. Það fannst mér afar áhugavert og fór í framhaldinu að kynna mér kannabis. Fólk gerir sér engan veginn grein fyrir hversu skaðlegt efnið getur verið,“ segir Arnar, sem reyndi að fræða sjúklingana á deildinni en með afar litlum árangri.
„Þeir meðtóku ekki það sem ég sagði. Þannig að ég fór að leita að fræðsluefni en fann bara leiðbeiningar um hvernig ætti að nota efnið.“

Á síðunni er farið yfir skaðsemi kannabiss á líkama og huga. Greinarnar eru auðlesnar og byggðar á vísindalegum rannsóknum. „Margir telja efnið skaðlaust og eru ekki meðvitaðir um hætturnar sem geta fylgt því að reykja kannabis, til dæmis á miðtaugakerfið og hættuna á geðrofi. Einnig eru margir sem telja að kannabis geti ekki verið ávanabindandi en rannsóknir sýna það. Flestar sýna að einn af hverjum tíu sem prófa efnið verði háður því.“