Innlent

Björgunarsveitir í aðgerðum víða um land vegna óveðurs

Björgunarsveitir voru kallaðar út víða um land í gærkvöldi til að hefta fok og til að aðstoða vegfarendur í vandræðum, en engin hefur slasast í óveðrinu, svo fréttastofunni sé kunnugt um.

Tilkynnt var um fok á Seyðisfirði, í Grundarfirð, í Vestmannaeyjum, á Reyðarfirði á Egilsstöðum og á Húsavík. Rafmagnið fór líka af Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og nálægum sveitum í gærkvöldi þegar raflínur slitnuðu undan ísingu. Rafmagn komst á aftur í nótt, en er skammtað.

Tuttugu manna hópur starfsmanna Álversins á Reyðarfilrði lenti í erfiðleikum þegar hópurinn var á leið í rútu til vinnu í gærkvöldi. Hríðin var svo blind að ganga þurfti á undan rútunni til að vísa bílstjóranum til vegar.

Lögreglumenn og björgunarsveitir hafa aðstoðað vegfarendur á og við Akureyri í alla nótt og er mikil ófærð þar um slóðir. Undir morgun fór að bæta i vind á Suðurlandi og voru björgunarsveitir kallaðr út á Selfossi og í Hveragerði og um sex leitið í morgun bárust þrjár tilkynningar um fok á höfuðborgarsvæðinu og sjógangur var upp á Sæbrautina.

Skólahald fellur víða niður í dag á Norður og Norðausturlandi að minnsta kosti og er foreldrum bent á að hafa samband við skólana á hverjum stað.

Nú er stórstreymt og getur því verið hætt við sjávarflóðum, einkum fyrir norðan, en ekki hafa boritst fregnir af því enn sem komið er. Þau fáu fiskiskip, sem enn eru á sjó, eru í vari inni á fjörðum fyrir austan og vestan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×