Innlent

Blíðan varir út vikuna

Þessi drengur þurfti ekki að láta segja sér það tvisvar að stökkva í Pollinn við Akureyri til að kæla sig í gærdag, enda fór hitinn í bænum upp í 20 stig.
Mynd/Hildigunnur Magnúsdóttir
Þessi drengur þurfti ekki að láta segja sér það tvisvar að stökkva í Pollinn við Akureyri til að kæla sig í gærdag, enda fór hitinn í bænum upp í 20 stig. Mynd/Hildigunnur Magnúsdóttir
„Menn fara sennilega að kvarta undan úrkomuleysi í lok vikunnar,“ segir Björn Sævar Einarsson veðurfræðingur. Veðurstofa Íslands spáir blíðskaparveðri á landinu öllu út vikuna, en útlit er fyrir að hitinn haldist í um 20 gráðum í innsveitum norðaustanlands fram til laugardags. „Það verður yfirleitt heitast inn til landsins og má alveg búast við við þessum hita út vikuna,“ segir Björn Sævar.. „Þetta verður mjög aðgerðarlítið veður.“

Hitinn orsakast af mjög hlýju lofti sem berst úr suðri og var svokölluð frostmarkshæð yfir landinu um 12 þúsund fet í gærdag. Björn Sævar segir það ótrúlega hátt.

„Það nær sjaldnast svona hátt en þýðir að við erum einfaldlega með afskaplega hlýtt loft,“ segir hann.

Hitinn fór yfir 20 stig á Akureyri í gær og svo virtist sem margir þeir sem sóttu bæinn heim um hvítasunnuhelgina hafi ákveðið að nota síðustu stundir heimsóknarinnar í Sundlaug Akureyrar. Mikil örtröð myndaðist fyrir utan sundlaugina í gærmorgun og segir Friðbjörg Hallgrímsdóttir, vaktstjóri í sundlauginni, að traffíkin hafi byrjað afar snemma. Biðraðir höfðu myndast áður en staðurinn opnaði klukkan tíu um morguninn.

„Á stærstu dögunum okkar eru um 2.200 manns að fara hér í gegn og ég gæti trúað því að fjöldinn fari yfir það núna.“

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×