Innlent

Bóas Ragnar: Segist hafa búið til myndbandið af ótta við handrukkara

Bóas Ragnar segir lögmann sinn hafa fengið póst um að ef hann fjarlægði hlekkinn af vefnum og játaði að hann væri að ljúga, þá væri hægt að liðka til varðandi kæru sem hann sætir fyrir fjársvik.
Bóas Ragnar segir lögmann sinn hafa fengið póst um að ef hann fjarlægði hlekkinn af vefnum og játaði að hann væri að ljúga, þá væri hægt að liðka til varðandi kæru sem hann sætir fyrir fjársvik.
„Ég er búinn að sæta hótunum vegna handrukkara," segir Bóas Ragnar Bóasson, athafnamaður, sem birti myndband á vef Youtube um helgina en á myndbandinu má heyra hljóðupptöku af samtali á milli Guðmundar Arnar Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Landsbjargar, og Bóasar, þar sem þeir skipuleggja brot á gjaldeyrishöftum.

Bóas segir í samtali við Vísi að hann hafi upprunalega sent myndbandið á fjóra stjórnarmenn hjá Landsbjörg þar sem hann hafi óttast um öryggi sitt vegna handrukkara sem hafi verið á eftir honum, en Bóas vill meina að það tengist viðskiptum hans við Guðmund og félaga hans, Sigurðar Kolbeinsson.

Málið er um margt sérstakt. Bóas birti upptökuna á Youtube síðastliðinn sunnudag. Hann segist hafa sent stjórnarmönnum Landsbjargar hlekkinn á myndbandið. Í gærmorgun fékk lögmaður Bóasar svo póst frá lögmanni Guðmundar og Sigurðar, þar sem ýjað er að því að ef Bóas taki myndbandið út og viðurkenni að Það hafi verið uppspuni, þá muni slíkt liðka til varðandi sakamál sem beinist að Bóasi.

Málið er nefnilega þannig að Guðmundur og Sigurður hafa kært Bóas fyrir að hafa haft af þeim rúmar 60 milljónir króna. Sjálfur vill Bóas meina að hann hafi endurgreitt stóra hluta þessarar upphæðar til baka. Málið er engu að síður í rannsókn hjá fjársvikadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en ekki sérstökum saksóknara eins og Sigurður vildi meina í yfirlýsingu sem hann sendi á fréttastofu í morgun. Þar hafa yfirheyrslur farið fram vegna málsins.

„Ég á tíu klukkustundir af efni," segir Bóas sem segist hafa tekið upp öll sín samskipti við Guðmund Örn og fleiri. Hann segir að það sé alrangt sem Guðmundur haldi fram varðandi að myndbandið sem finna má á Youtube, sé uppspuni eða klippt til og tekið úr samhengi. „Það eina sem er klippt til er endirinn þar sem ég tek út einhverjar sex mínútur því þá vorum við bara að tala um daginn og veginn," útskýrir Bóas spurður hvort hann hafi tekið myndbandið úr samhengi eða breytt því með öðrum hætti.

Spurður hverskyns viðskipti séu að eiga sér stað í samræðum hans við Guðmund á myndbandinu svarar Bóas því til að þeir séu að skipuleggja brot á gjaldeyrishöftunum, „ég er ekkert saklaus, mér var stýrt af öðrum og kannski lét ég glepjast af græðgi," segir Bóas sem bætir við að hann hafi þurft að lifa í ótta síðastliðna mánuði við að handrukkarar komi á heimili hans og beiti hann líkamlegu ofbeldi. Hann vill meina að slíkar árásir séu runnar undan rifjum Sigurðar og Guðmundar.

Spurður hvort hann hafi verið beittur líkamlegu ofbeldi svarar hann neitandi, en segir þrjá handrukkara, þar af einn þekktan úr undirheimum Reykjavíkur, hafa ógnað sér á heimili hans. Þess vegna hafi hann sett saman myndbandið, „þetta var varnarviðbragð vegna handrukkaranna," segir Bóas. „Lögreglan er með eftirlit við heimilið mitt," bætir Bóas við sem segist hafa látið lögreglu vita af stöðu mála, þó hann hafi ekki kært ógnir handrukkara. Ekki hefur náðst í lögregluna til þess að fá það staðfest.

Spurður út í meintu fjársvikin segir Bóas að hann hafi verið kærður fyrir að stela 65 milljónum króna af Sigurði Kolbeinssyni. Hann hafi greitt 47 milljónir til baka og skuldi því átján milljónir. Aðspurður hvort Guðmundur Örn hafi tapað á viðskiptunum svarar Bóas neitandi.

Guðmundur Örn hefur vikið tímabundið frá störfum sem framkvæmdastjóri Landsbjargar og segir að upptakan á myndbandinu, sem á að hafa verið tekin upp í höfuðstöðvum Landsbjargar sumarið 2010, sé uppspuni. Hann hefur ítrekað boðað yfirlýsingu vegna málsins í dag, en hún hefur ekki borist fjölmiðlum. Þá hefur Guðmundur hótað fréttastofu málaferlum birti hún hlekk á myndbandið á vef Youtube.

Þegar Bóas er spurður hvort búast megi við fleiri upptökum á vefnum svarar Bóas játandi en í lok myndbandsins er gefið til kynna að það verði framhald.


Tengdar fréttir

Formaður Landsbjargar: Erum að lýsa upp í öll horn

"Við erum bara að lýsa upp í öll horn,“ segir Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar, en starfsfólk er búið að fara yfir bókhald félagsins og kanna hvort þar sé að finna eitthvað óeðlilegt, eftir að myndbandi um framkvæmdastjóra félagsins var birt á netinu.

Segir myndband tilbúning og hótar málaferlum út af hlekk

"Umrætt myndband er tilbúningur einn af ónefndum aðila sem gert er í þeim tilgangi að skaða æru og trúverðugleika undirritaðs og eftir atvikum þeim samtökum sem undirritaður hefur starfað hjá sem framkvæmdastjóri.

Segir Bóas hafa verið kærðan fyrir stórfelld fjársvik

Sigurður K. Kolbeinsson, eða Siggi eins og hann er kallaður í umdeildu myndbandi á Youtube, segir í yfirlýsingu sem hann sendi á fréttastofu að Bóas Ragnar Bóasson athafnamaður, sé ábyrgur fyrir myndbandinu þar sem fram koma alvarlega ásakanir á hendur framkvæmdastjóra Landsbjargar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×