Innlent

Bölmóðurinn of mikill á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggvi Kristbjörn segir að fólk geti ekki endilega treyst á ríkið þó að það sé komið í vanda.
Tryggvi Kristbjörn segir að fólk geti ekki endilega treyst á ríkið þó að það sé komið í vanda.
Bölmóðurinn er of mikill, segir Tryggvi Kristbjörn Guðmundsson, íbúi á Árskógsströnd í samtali við Vísi. Hann er einn þeirra sem hefur þurft að nýta sér úrræði stjórnvalda til að fást við skuldavanda sinn.

„Ég er búinn að fara í gegnum allan þennan pakka," segir Tryggvi. Hann telur að neikvæðnin gagnvart þeim úrræðum sem verið sé að tryggja fólki sé allt of mikil. Hann segir að vandi allt of margra sé sá að þeir hafi farið frammúr sjálfum sér. Auðvitað eigi þetta ekki við um alla. Hluti þeirra sem eigi í vanda sé fólk sem hafi misst vinnuna. „Ég skil þeirra vanda, því að þá náttúrlega minnkar greiðslugetan," segir Tryggvi.

Tryggvi segir að eftir fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga hafi hann ekki getað setið á sér. Báðar hliðar málsins yrðu að heyrast. „Ég byggði hús á Árskógsströnd árið 2005. Þetta var hús sem ég ætlaði að eiga heima í og ætlaði að eiga til frambúðar," segir Tryggvi. Hann fékk verðtryggt 17 milljóna króna lán hjá Íbúðalánasjóði. Það sé nú farið að nálgast 25 milljónir. Hann hafi því fengið greiðslufrest í tvö ár og nýtt sér lífeyrissjóðssparnaðinn. Í sínu tilfelli hafi þau úrræði sem stjórnvöld bjóða uppá því dugað ágætlega.

Tryggva Kristbirni finnst of mikil umræða um það á meðal almennings að ríkið eigi að bjarga öllu. Hann telur að fólk sem eigi í skuldavanda eða annan vanda eigi ekki endilega heimtingu á aðstoð frá ríkinu. „Stjórnvöld eiga ekkert að hjálpa mér að skúra,. þó mér gangi illa að skúra," segir Tryggvi Kristbjörn. Hann segir að þegar talað hafi verið við eldra fólk um fyrri kreppur hafi það fólk bent á að enga aðstoð hafi verið að fá. „Þegar kreppan kom 1980 var ekki gert neitt," segir Tryggvi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×