Lífið

Bónorð í eggi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hafliði Ragnarsson segir að um tuttugu manns hafi samband árlega og vilji setja eitthvað sérstakt í eggin til ástvina sinna.
Hafliði Ragnarsson segir að um tuttugu manns hafi samband árlega og vilji setja eitthvað sérstakt í eggin til ástvina sinna. vísir/pjetur
Við fáum þó nokkuð af fyrirspurnum og pöntunum með séróskum. Það er rómantík í þessu, sett ástarbréf og jafnvel trúlofunarhringar. Við erum með eitt svoleiðis egg í ár. Svo eru sum eggin skreytt með skilaboðum til ástvina, til dæmis „Til bestu mömmu í heimi“, þetta er að færast í aukana,“ segir Hafliði sem hefur undanfarnar vikur unnið myrkranna á milli við súkkulaðieggjaframleiðslu.

„Það er til dæmis einn lítill strákur hérna hjá mér núna sem er með mjólkur- og glútenóþol. Hann kemur með nammi sem hann má borða og við setjum það í egg sem er búið til úr hreinu súkkulaði.“

Undanfarin ár hefur landinn fengið aukinn áhuga á öðru súkkulaði en ljósu, sykursætu mjólkursúkkulaði.

„Mjólkursúkkulaðið er alltaf vinsælt en ég sérvel það frá Belgíu og svo er ég með karmelíserað hvítt súkkulaði sem er mjög vinsælt. Annars er dökka súkkulaðið alltaf vinsælast. Ég vel alltaf sérstaklega súkkulaðið sem ég nota í eggin á hverju ári þannig að það skapast líka spenna hjá súkkulaðiunnendum að sjá hvað er í boði hverju sinni.“

Hafliði heldur þó fast í hefðina um að hafa málshátt í eggjunum.

„Það er eitthvað sem við Íslendingar viljum. En það er vandmeðfarið að finna málshætti og sumir geta vissulega verið kaldranalegir. Fólk, sem er ekki sátt við málsháttinn sinn, hefur haft samband við mig. Maður þarf svo sannarlega að huga vel að þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×