Innlent

Borgaryfirvöld íhuga að fækka kanínum í Elliðaárdal með veiðum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stefnt er að uppsetningu varúðarskilta um kanínur við hjólastíga í Elliðaárdal.
Stefnt er að uppsetningu varúðarskilta um kanínur við hjólastíga í Elliðaárdal. Mynd/Reykjavíkurborg
Meðal möguleika sem Reykjavíkurborg skoðar til að stemma stigu við útbreiðslu kanína í Elliðaárdal eru veiðar og bann við að fóðra þær.

Á miðvikudaginn var minnisblað lagt fram í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur með hugmyndum að mögulegum aðgerðum til að fækka kanínum í neðanverðum Elliðaárdal.

Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um aðgerðirnar. Hins vegar er reiknað með að varúðarskilti um kanínur verði sett upp við hjólastíga í Elliðaárdal á næstunni.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur tilfellum þar sem árekstrar hafa orðið við kanínur farið fjölgandi. Nú síðast fyrir nokkrum vikum varð alvarlegt hjólreiðaslys þar sem hjólreiðamaðurinn varð meðal annars fyrir beinbrotum og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús.

Kanínur eru friðaðar samkvæmt lögum um veiðar og vernd dýra. Meðal aðgerða sem lagðar eru til umræðu fyrir umhverfis- og skipulagsráð er að kanínum á svæðinu sé fækkað kerfisbundið með veiðum, og þyrfti þá undanþágu frá lögum. Einnig er lagt til að setja strangar reglur um að bannað sé að fóðra kanínurnar í Elliðaárdal.

Til að tryggja öryggi er meðal annars lagt til að setja upp sérstök varúðarskilti. Þegar hefur verið rætt við Vegagerðina og lögregluna um að útbúa lága kanínuhelda girðingu meðfram aðreininni sem liggur frá Stekkjarbakka út á Reykjanesbraut.

Málið verður skoðað frekar í ráðinu. Snorri Sigurðsson verkefnisstjóri, sem ritaði minnisblaðið, segir mikilvægt að ítreka að það sé afar óæskilegt og í raun brot á lögum um velferð dýra að sleppa gælukanínum lausum úti í náttúrunni.

„Fólk sem vill ekki eiga kanínurnar sínar ætti að finna önnur heimili fyrir kanínurnar eða láta svæfa þær á mannúðlegan hátt hjá dýralækni,“ segir Snorri Sigurðsson. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×