Innlent

Borgin vill friða gömul hús á stjórnarráðsreit

Atli Ísleifsson skrifar
Reykjavíkurborg vill að þrjú eldri hús á stjórnarráðsreitnum verði friðuð og fái áfram að standa.
Reykjavíkurborg vill að þrjú eldri hús á stjórnarráðsreitnum verði friðuð og fái áfram að standa. Vísir/Pjetur

Reykjavíkurborg vill að þrjú eldri hús á stjórnarráðsreitnum verði friðuð og fái áfram að standa. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, hefur sent Stefáni Thors, nýráðnum húsameistara ríkisins, bréf um uppbyggingu á stjórnarráðsreitnum.

Húsin sem um ræðir eru Lindargata 3, hús Hæstaréttar sem hannað er af Guðjóni Samúelssyni, Lindargata 7, hús Jóns Þorsteinssonar sem hannað var af Einari Sveinssyni  og friðað árið 2011 og Sölvhólsgata 13 sem hannað var af Einari Sveinssyni.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að bréfið hafi verið lagt fram á fundi borgarráðs í morgun og sé ítrekun á erindi borgarstjóra til forsætisráðsherra sem dagsett er 12. febrúar 2014. Bréfinu hefur enn ekki verið svarað.

„Í erindi borgarstjóra til forsætisráðherra var vakin athygli á því að borgarráð hafi falið umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að endurskoða skipulag reitsins í ljósi hugmynda um að Listaháskóli Íslands myndi koma sér betur fyrir á reitnum. Í dag er starfsemi skólans á reitnum meðal annars í nokkurs konar sumarhúsum sem komið var fyrir með bráðabirgðaleyfum.  Þá vekur  borgarstjóri athygli forsætisráðherra á því að samkvæmt gildandi  deiliskipulagi megi rífa fjögur steinhús á reitnum en eitt þeirra, svokallað Landssímahús sem Guðjón Samúelsson teiknaði, hefur þegar verið rifið.

Í bréfinu til húsameistara segir að Reykjavíkurborg vilji eindregið að þau þrjú hús sem standa eftir á reitnum fái að standa jafnvel þótt það kalli á róttæka endurskoðun á hugmyndum um uppbyggingu í þágu stjórnarráðsins á reitnum,“ segir í fréttinni.

Nánar er fjallað um málið á vef Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×