Innlent

Börnum haldið inni svo vikum skipti vegna hálku

Stefán Árni Pálsson skrifar
Börn hafa ekki farið út í leikskólagarð svo vikum skiptir.
Börn hafa ekki farið út í leikskólagarð svo vikum skiptir. visir/haraldur bjarnason
Mikil hálka hefur verið í Reykjavík að undanförnu og hefur það haft áhrif á íbúa Reykjavíkurborgar.

Dæmi eru um að börn á leikskólum hafi ekki farið út í leikskólagarðinn svo vikum skiptir vegna hálku og hefur borið á töluverðari óánægju hjá foreldrum.

Á leikskólanum Laugarsól við Leirulæk í Reykjavík hefur ekki verið hægt að hleypa börnum út í garð í einhvern tíma vegna aðstæðna.

„Það hefur verið svo mikil hálka að við hreinlega treystum okkur ekki að hleypa börnunum út í garð,“ segir Helga Alexandersdóttir, leikskólastjóri á Laugarsól, í samtali við Vísi.

„Það hefur verið klaki yfir öllum garðinum. Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur reynt ítrekað að sanda garðinn en sandurinn lekur alltaf af klakanum og það hefur ekki borið neinn árangur.“

„Svona er staðan hér hjá okkur og ég veit til þess að þetta sé einnig svona á öðrum leikskólum. Það hafa ekki komið upp nein slys á börnum hér hjá okkur en þetta er bara erfitt viðfangs. Í raun og veru höfum við gert allt það sem hægt er að gera í þessu máli. Ég vona að þetta sé að lagast en það hefur gengið töluvert á klakann undanfarna daga.“

„Foreldrar eru skiljanlega mjög óhressir með þetta en það er bara svo erfitt að ráða við þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×