Innlent

Brasilísk djass-söngkona svipt atvinnuleyfi vegna atvinnuleysis

„Óvissan er verst, ég veit ekki hvað ég á að gera," segir Jussanam da Silva frá Brasilíu en hún segir Vinnumálastofnun hafa hafnað að framlengja vinnuleyfið sitt meðal annars vegna mikils atvinnuleysis.

Jussanam hefur unnið í tvö ár á frístundarheimilinu Hlíðaskjóli og var þegar búin að gera starfssamning um að vinna í ár til viðbótar á heimilinu. Aftur á móti hafnaði Vinnumálastofnun samningnum. Ástæðan er sú að Jussanam er nýskilin við eiginmanninn sinn. Þá fengust þær skýringar einnig að atvinnuleysið á Íslandi sé það hátt að einstaklingar af EES svæðinu ganga fyrir. Þar af leiðandi fær hún samninginn ekki samþykktan.

Jussanam hefur getið sér gott orð hér landi meðal annars fyrir sönghæfileika sína. Hún hefur sungið djass með helstu djasstónlistarmönnum Íslands, meðal annars Tómasi R. Einarssyni og píanóleikaranum Agnari Má Magnússyni. Þá gaf hún út tónlistardiskinn Ela é Carioca fyrir um ári síðan.

Jussanam er að vonum ósátt við að fá ekki að vinna lengur og þar af leiðandi ekki dvelja á Íslandi.

„Án starfsins fæ ég enga peninga og get því ekki borgað reikningana. Ég óttast næstu mánaðamót," segir Jussanam sem bætir við: - „Ég hélt alltaf að þegar sá dagur kæmi að ég missti vinnuna færi ég aftur heim. En ég missti ekki vinnuna. Hún bíður eftir mér."

Yfirmaður Jussanam heitir Andrea Ólafsdóttir. Hún hefur aðstoðað Jussanam í baráttu hennar við vinnumálastofnun og Útlendingastofnun.

„Við höfum skrifað bréf til lögfræðinga borgarinnar, Útlendingastofnunnar og Vinnumálastofnunnar. Hún hefur unnið í tvö ár fyrir okkur er hefur góða hæfileika í starfið," segir Andrea sem staðfestir að hún hafi gert samning við Jussanam sem hafi síðan verið hafnað af Vinnumálastofnun.

„Við fengum meðal annars þau svör að það væri svo mikið atvinnuleysi hér að íbúar Evrópusvæðisins ættu að ganga fyrir," segir Andrea sem þykir stefnan öfugsnúin enda vilji af allra hálfu að hafa Jussanam áfram í vinnu.

Andrea segir þetta skrýtið mál auk þess sem það varpi ljósi á veika stöðu erlendra einstaklinga sem skilja við maka sína. Hún segir lögskilnað Jussanam ekki ganga í gegn fyrr en í október, engu að síður séu þessar aðgerðir hafnar.

Jussanam hefur áfrýjað málinu til dómsmálaráðuneytis en málið hefur ekki verið tekið fyrir enn sem komið er. Þangað til þarf Jussanam að sitja heima þrátt fyrir viljann til þess að vinna auk þess sem starfið bíður eftir henni.

Eins og fyrr segir er Jussanam söngkona. Hér má meðal annars horfa á upptöku af henni í Kastljósinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×