Innlent

Bréfaskrif Darling sýna að Íslendingar voru beittir þvingunum

SB skrifar
Áður óbirt bréfaskrif Alistair Dairling fyrrverandi fjármálaráðherra Breta sýna að bresk stjórnvöld beittu Íslendinga vísvitandi þvingunaraðgerðum. Þetta kemur fram í rökstuðningi íslenskra stjórnvalda til Eftirlitsstofnunanar EFTA.

Í svarbréfi íslenskra stjórnvalda er vitnað í bréf Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Breta, til ritara ráðuneytisstjóra síns. Bréfið er dagsett áttunda október, tveimur dögum eftir að neyðarlögin svokölluðu voru samþykkt og sama dag og Bretar beittu hryðjuverkalögunum á íslenska ríkið og fjármálastofnanir í Bretlandi.

Í bréfinu segir Darling: „Í dag hef ég gripið til þeirra aðgerða að frysta sjóði og fjárhagslegar eignir Landsbankans í Bretlandi." Hann segir að þessar aðgerðir muni verja breskt efnahagskerfi og auka tiltrú sparifjáreigenda á bankakerfinu til að forða áhlaup á það.

Í svarbréfi ráðuneytisstjórans til Dairlings um það hvernig breska ríkið gæti útvegað ábyrgðir til sparifjáreigenda Icesave - afhjúpast í raun ásetningur breskra stjórnvalda. Í bréfinu rekur hann að þeir muni borga innistæðutrygginguna upp á 20.887 evrur út fyrst án þess að spyrja Íslendinga - með því hyggist þeir setja þrýsting, eða ýta á Íslendinga, til að borga til baka.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er litið á þessi bréfaskrif Alistair Darling í viðskiptaráðuneytinu sem lykilplagg í Icesave deilunni. Það sýni að menn ætluðu ekki semja í góðri trú heldur megi líta á það sem yfirlýsingu um þvingunaraðgerðir; Bretar hafi í raun ætlað að "handrukka" Íslendinga til að borga Icesave skuldina, bréfaskrif Alistair Darling staðfesti að ákvörðun breska ríkisins var einhliða.

Í svarbréfi íslenskra stjórnvalda eru aðgerðir breta og hollendinga sagðar ólögmætar og eru bréfaskrif Alistair Darlings notuð til að rökstyðja það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×