Skoðun

Brennuvargar snúa aftur

Pétur Ólafsson skrifar
Svo virðist sem stjórnmálamenn líti á að þeim sé heimilt að hagræða sannleikanum ef líkur eru á að dómur sögunnar verði þeim ekki hliðhollur. Engu er líkara en sú sé raunin um Hjálmar Hjálmarsson bæjarfulltrúa NæstBesta flokksins í Kópavogi. Hann hefur markvisst reynt að firra sig ábyrgð á því að sprengja meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, NæstBesta flokks og Y-lista Kópavogsbúa sem sat hér frá því í júnímánuði árið 2010. Í greininni fer ég yfir nokkrar staðreyndir sem fram komu á fundum hjá okkur allt frá því að boðað var til fundar 12. janúar sl. þar sem starfslok bæjarstjóra voru til umræðu.

Skýr niðurstaða fundarÁ þessum fundi voru starfslokin rædd, ekki í fyrsta sinn og ekki í annað sinn. Á þeim meirihlutafundum þar sem framtíð bæjarstjóra var til umræðu, m.a. í septembermánuði á síðasta ári og á vormánuðum sama árs, var í báðum tilvikum komist að þeirri niðurstöðu að við bæjarstjórann skyldi rætt, m.a. um verkefnin sem fyrir lágu og þau sem að baki voru. Vonast var eftir bótum og betrun en sú varð ekki raunin. Þegar kom á daginn það sem allir vissu að verulegir brestir voru teknir að myndast í trausti meirihlutans í garð bæjarstjóra, var boðað til þessa fundar. Og til að taka af öll tvímæli þar um, þá sagði Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs, á þeim fundi að hún skyldi fara á fund bæjarstjóra daginn eftir (föstudag) til að ræða hennar starfslok. Öllu skýrara og öllu einfaldara verða hlutirnir ekki. Það var ómögulegt að skilja hlutina öðruvísi og munu hvorki ég, né aðrir bæjarfulltrúar á fundinum taka ábyrgð á allt að því klaufalegum misskilningi bæjarfulltrúa NæstBesta flokksins á svo mikilvægu atriði.

Ópólitískur bæjarstjóriÁ föstudegi gengur Guðríður Arnardóttir sem sagt á fund bæjarstjóra og gerir henni grein fyrir ákvörðun meirihlutans. Á sunnudeginum 15. janúar fer af stað atburðarás sem endar með því að málefnum bæjarstjóra er lekið í fjölmiðla, svo markvisst raunar að stærstu fréttastofurnar birta fréttir á sama tíma um málið. Í kjölfarið hittumst við bæjarfulltrúar meirihlutans til að funda um næstu skref. Bæjarfulltrúar Y-lista Kópavogsbúa og NæstBesti flokkurinn lýsa því yfir að þau vilja ekki fá pólitískan bæjarstjóra. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna samþykktu það eftir talsverðar umræður um efnið. Þar við sat. Á fundi kvöldið eftir, mánudaginn 16. janúar sl., hófum við að kasta á milli okkar nöfnum að heppilegum bæjarstjóra. Engin lending var eftir þann fund og ákveðið að hittast daginn eftir.

Örvænting grípur um sigRétt er að taka fram að á þessum tímapunkti var ekkert sem benti til annars en við myndum finna heppilegan kandídat í stól bæjarstjóra. Góður andi var yfir öllum þessum fundum og hugur í bæjarfulltrúum yfir verkefnunum sem framundan voru. Þess vegna kemur það eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Hjálmar Hjálmarsson mætti á fund oddvita meirihlutaflokkanna daginn eftir og sagðist ekki geta starfað með þeim lengur. Ástæðuna segir hann vera aðferðina frekar en aðgerðina um starfslok bæjarstjóra. Enn þann dag í dag átta ég mig hvorki á vægast sagt afar veiku tilefni bæjarfulltrúans til að sprengja meirihlutann, né örvæntingarfullum aðgerðum hans liðna daga til að reyna að firra sig ábyrgð á þeim slitum sem höfðu þær beinu afleiðingar að nú hafa gömlu refirnir sem settu bæjarfélagið nánast þráðbeint á höfuðið komist til valda á ný.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×