Viðskipti innlent

Búið að greiða helminginn af Icesave skuldinni

Slitastjórn Landsbankans hefur greitt helminginn af Icesave skuldinni eða 677 milljarða króna af forgangskröfum í þrotabúið.

Þetta kemur fram á vefsíðu slitastjórnarinnar. Þar segir að í þessum mánuði hafi 82 milljarðar króna verið greiddar Icesave kröfuhöfunum. Fyrstu greiðslurnar voru 2. desember í fyrra og námu þær greiðslur að jafnvirði um 432 milljörðum króna. Í maí s.l. voru 162 milljarðar króna greiddir og því hefur slitastjórnin greitt út að jafnvirði nálægt 677 milljörðum króna samanlagt, sem svarar til um 50% af fjárhæðum forgangskrafna.

Fram kemur á vefsíðunni að á móti hafi slitastjórnin fengið greidda samtals 16 milljarða kr. af sérstökum geymslureikningum. Þessar endurgreiðslur eru vegna krafna í þrotabúið sem endanlega hefur verið hafnað.

Heildar virði eigna þrotabúss Landsbankans er nú talið vera tæplega 1.500 milljarðar króna, eða 1.496 milljarðar nákvæmlega. Forgangskröfur í búið, þar sem kröfur frá þeim sem áttu fé inn á Icesave reikningum eru langsamlega fyrirferðamestar, eru ríflega 1.300 milljarðar króna, og því eru eignir bússins nú metnar á um 180 milljörðum meira, heldur en sem nemur forgangskröfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×