Innlent

Búist við yfirlýsingu um goslok

Gosið í Eyjafjallajökli hófst í apríl. Mynd/ Vilhelm.
Gosið í Eyjafjallajökli hófst í apríl. Mynd/ Vilhelm.
Vísindamannaráð Almannavarna fundar í dag um hvort ástæða sé til að lýsa því yfir að eldgosinu í Eyjafjallajökli sé lokið og hvort endurskoða eigi bann það sem í gildi er um ferðir í kringum eldstöðina.

Þótt Eyfellingar hafi sjálfir lýst yfir goslokum fyrr rúmum tveimur mánuðum og haldið sérstaka goslokahátíð að Skógum þann 10. júlí, að frumkvæði Árna Johnsen alþingismanns, þá voru vísindamenn ekki tilbúnir að afskrifa eldgosið í Eyjafjallajökli. Þeir minntu á að í alþjóðlegum eldfjallafræðum væri gjarnan notað það viðmið að eldstöð þyrfti að vera án virkni í samfellt þrjá mánuði til að eldgosi teldist lokið.

Og nú eru einmitt liðnir þrír mánuðir frá því síðast varð vart við eldsumbrot í toppgíg Eyjafjallajökuls en talið er að síðasta virkni hafi verið þar dagana 6. og 7. júní. Vísindamannaráð Almannavarna fundar í dag og meginumræðuefnið er staðan í Eyjafjallajökli og hvort ástæða sé til að lýsa yfir goslokum.

Einnig verður rætt um hvort endurskoða þurfi bannsvæðið, sem enn er formlega í gildi gagnvart ferðalögum á Eyjafjallajökul. Þótt lýst verði yfir goslokum þykir líklegt að áfram verði í gildi bann að einhverju marki enda valda þykk öskulög á jöklinum því að áfram eru taldar líkur á hættulegum eðjuflóðum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×