Viðskipti innlent

Bygma er að ganga frá kaupum á Húsasmiðjunni

Endurálagning Ríkisskattstjóra vegna skuldsettra yfirtakna fyrrum eigenda fyrirtækisins setti stórt strik í reikninginn í söluferlinu. Fréttablaðið/Pjetur
Endurálagning Ríkisskattstjóra vegna skuldsettra yfirtakna fyrrum eigenda fyrirtækisins setti stórt strik í reikninginn í söluferlinu. Fréttablaðið/Pjetur
Danska byggingavörukeðjan Bygma A/S mun ganga frá kaupum á Húsasmiðjunni í byrjun þessarar viku. Heimildir Fréttablaðsins herma að náðst hafi samkomulag milli Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) og dönsku kaupendanna um þá niðurstöðu.

Húsasmiðjan var auglýst til sölu í ágúst síðastliðnum. Alls skiluðu tólf inn óskuldbindandi tilboðum og fimm skuldbindandi tilboðum skömmu síðar. Í byrjun nóvember var síðan ákveðið að ganga til viðræðna við hæstbjóðanda, Bygma A/S.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru viðræður langt komnar þegar tilkynning um endurálagningu skatta upp á meira en hálfan milljarð króna barst frá Ríkisskattstjóra.

Ástæða endurálagningarinnar var að fyrri eigendur Húsasmiðjunnar nýttu vaxtagreiðslur af lánum sem notuð voru til að kaupa fyrirtækið til skattafrádráttar. Ríkisskattstjóri telur slíkt ekki heimilt.

Húsasmiðjan hefur mótmælt endurálagningunni.

Í síðustu viku tókst að ná samkomulagi milli Bygma og FSÍ um hvernig tekist verður á við endurálagninguna verði hún að veruleika. Í kjölfarið var hægt að ganga frá kaupunum.

Ástæðu endurálagningarinnar má rekja til þess þegar félag í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar keypti Húsasmiðjuna sumarið 2002 ásamt Baugi Group, fjárfestingafélagi í meirihlutaeigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Kaupin fóru fram í gegnum nýstofnað félag sem fékk nafnið Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar ehf. Árni og Hallbjörn áttu 55% hlut í félaginu en Baugur 45%. Kaupverðið á Húsasmiðjunni var um 5,3 milljarðar króna og var að langmestu leyti tekið að láni. Í byrjun árs 2004 var Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar síðan sameinað rekstrarfyrirtækinu Húsasmiðjan hf. Í samrunaáætlun kom fram að „við sameininguna renna allar eignir, skuldir og skuldbindingar Eignarhaldsfélags Húsasmiðjunnar ehf. inn í Húsasmiðjuna hf.“.

Því voru lánin sem eigendahópurinn tók árið 2002 nú orðin lán Húsasmiðjunnar. Við það hækkuðu skuldir Húsasmiðjunnar um 4,3 milljarða króna.

Snemma árs 2005 seldu Árni og Hallbjörn síðan eignarhluta sinn í Húsasmiðjunni til nýstofnaðs félags í eigu Baugs, Saxbygg og Fjárfestingafélagsins Primus, sem var í eigu Hannesar Smárasonar. Það félag fékk sama nafn og félagið, sem áður hafði verið rennt saman við Húsasmiðjuna, Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar ehf.

Síðan var sami leikurinn leikinn aftur. Í mars 2006 var Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar og dótturfélög þess sameinuð Húsasmiðjunni hf. með öllum eignum og skuldum. Sameiningin miðaði við 1. júní 2005. Við það hækkuðu skuldir Húsasmiðjunnar um 2,8 milljarða króna. Samtals hækkuðu skuldir fyrirtækisins því um 7,1 milljarð króna vegna skuldsettra yfirtakna fyrrum eigenda. Landsbankinn breytti samtals 11,2 milljörðum króna af skuldum Húsasmiðjunnar í nýtt hlutafé áður en bankinn seldi fyrirtækið til Framtakssjóðsins. Skuldir Húsasmiðjunnar í dag eftir þær niðurfærslur eru rúmlega 2,5 milljarðar króna.

thordur@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×