Innlent

Catalina að koma en flugsýningu frestað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Catalina við afgreiðslu Flugfélagsins á Reykjavíkurfluvelli. Þessar flugvélar áttu stóran þátt í uppbyggingu innanlandsflugsins á árunum 1944-1961.
Catalina við afgreiðslu Flugfélagsins á Reykjavíkurfluvelli. Þessar flugvélar áttu stóran þátt í uppbyggingu innanlandsflugsins á árunum 1944-1961. Mynd/Flugmálafélag Íslands.
Catalina-flugbáturinn, sem verður helsti sýningargripur flugdagsins í Reykjavík, er nú á leiðinni til Íslands og áætlar lendingu á Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálfsjö í kvöld. Flugmálafélag Íslands hefur hins vegar ákveðið að fresta flugsýningunni fram á mánudag, annan í hvítasunnu, vegna veðurs.

Catalinan lagði af stað frá Prestwick í Skotlandi til Íslands í hádeginu og var flugtak kl. 12.14. Flugtími er áætlaður sex og hálf klukkustund.

„Við erum búnir að taka ákvörðun um að fresta sýningunni til mánudagsins, annars í hvítasunnu, vegna veðurs ," sagði Matthías Sveinbjörnsson, stjórnarmaður í Flugmálafélaginu, í dag, og sagði veðurspána fyrir mánudag mun betri.

Flugvélin heldur hinsvegar sínu striki, er á leiðinni, og áætlar að lenda um kl. 18:15. Henni verður lagt við þristinn Pál Sveinsson hjá Flugþjónustunni, aftan við Loftleiðabygginguna. Þar mun almenningi gefast kostur á að skoða vélina í návígi á mánudag milli klukkan 12 og 16 og verður það í fyrsta sinn í áratugi sem slíkt tækifæri gefst hérlendis

Catalina-flugvélar skipa einn stærsta sessinn í flugsögu Íslands. Í október árið 1944 varð Catalina Flugfélags Íslands, TF-ISP, fyrsta íslenska flugvélin til þess að fljúga milli landa og hún flaug einnig fyrsta millilandaflug Flugfélags Íslands sumarið 1945. Catalinur Flugfélagsins og Loftleiða áttu jafnframt stóran þátt í uppbyggingu innanlandsflugs á árunum 1944 til 1961 þegar flugvellir voru fáir, samgöngur á landi erfiðar og sjóferðir tímafrekar. Þá notaði Landhelgisgæslan einnig Catalinu, TF-RÁN, á árunum 1954 til 1963, og kom hún mjög við sögu í þorskastríði Íslendinga við Breta 1958-1961.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×