Erlent

Concord þota aftur á loft árið 2012

Allar líkur eru á að hin þjóðsagnakennda þota Concord komist aftur á loft eftir tvö ár. Breskir og franskir flugáhugamenn vinna nú að málinu.

Concord þotu hefur ekki verið flogið frá því árið 2003 þegar allar slíkar þotur voru kyrrsettar. Traustið á þessari þotu hvarf árið 2000 í kjölfar hörmulegs flugslyss skammt frá Charles De Gaulle flugvellinum. Nú á hinsvegar að koma einni Concord á loft árið 2012 í tengslum við opunarhátíð sumarólympíuleikanna í London það ár.

Samkvæmt frétt um málið á BBC hafa breskir og franskir flugáhugamenn fengið fyrrum verkfræðinga á Concord verksmiðjunum í lið með sér og er ætlunin að koma á loft Concordþotu sem verið hefur til sýnis á safni í París undanfarin sjö ár. Í fyrstu ætla flugáhugamennirnir og verkfræðingarnir að kanna hvað þurfi til svo koma megi fjórum öflugum hreyflum þessarar þotu í gang.

Í flugslysinu árið 2000 þar sem Concord þota hrapaði niður á hótel í nágrenni Charles De Gaulle fórust 113 manns. Réttarhöldum vegna slyssins er nýlokið og dóms að vænta í desember næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×