Innlent

Dádýrshaus stolið í annað sinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Dádýrshausinn árið 2010 eftir fyrra innbrotið, kominn í hendur lögreglunnar á Selfossi. Hans er nú saknað í annað sinn.
Dádýrshausinn árið 2010 eftir fyrra innbrotið, kominn í hendur lögreglunnar á Selfossi. Hans er nú saknað í annað sinn. Mynd/Sunnlenska, Guðmundur Karl Sigurdórsson.

Lögreglan á Selfossi leitar þjófa sem stálu uppstoppuðum dádýrshaus úr sumarbústað í Árnessýslu um síðustu mánaðamót. Sama dádýrshaus var stolið í innbroti úr sama bústað fyrir þremur árum en hann kom þá í leitirnar með öðru þýfi eftir að lögreglan stöðvaði þjófagengi á stolnum bíl nokkrum dögum síðar.

Sumarbústaðurinn er í Miðhúsaskógi í Biskupstungum. Dádýrshausinn hefur minjagildi fyrir eigandann, sem hafði sjálfur skotið dýrið á námsárum í Kanada fyrir þrjátíu árum og látið stoppa upp.

Hausinn uppstoppaði var þó ekki það eina sem var stolið því þjófarnir voru stórtækir að þessu sinni og tóku einnig með sér hluti eins og ísskáp, teppi, grill, garðyrkjuáhöld, sláttuorf, útikamínu, búsáhöld, þar á meðal potta, bolla og hnífapör, og fjölda skrautmuna. Til dæmis var veggmyndum, bútasaumsteppi og útskornum listmunum stolið, þar á meðal tálguðu fuglunum á myndinni.

Lögreglan á Selfossi segir að þýfið hafi verið það fyrirferðamikið að það hafi ekki rúmast í venjulegum fólksbíl, og eigandinn telur sig hafa greint hjólför eftir flutningabíl, sem virðist hafa verið bakkað að bústaðnum. Þá telur eigandinn að þjófarnir hljóti að hafa verið tveir eða fleiri, enda hafi þurft að bera þunga hluti í bílinn.

Bútasaumsrúmteppið sem þjófarnir tóku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×