Innlent

Dæla hákarlaís, tannkremsís og doritos ís ofan í gesti

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ísdagurinn í fyrra var vel heppnaður og enginn fór íssvangur heim
Ísdagurinn í fyrra var vel heppnaður og enginn fór íssvangur heim
Ýmis ólíkindabrögð verða á boðstólum á Ísdeginum í Hveragerði sem haldinn verður hátíðlegur í sjöunda sinn á morgun. Munu gestir fá eins mikinn ís og þeir geta í sig látið. Í fyrra lét enginn segja sér það tvisvar og fóru tvö tonn af ís ofan í mannskapinn sem taldi 14 þúsund gesti.

Dagurinn er orðinn árlegur viðburður Kjöríss, haldinn í samstarfi við bæjarhátíðina Blómstrandi daga. Á árlega ísdeginum er lögð sérstök ísleiðsla úr verksmiðju Kjöríss og út á bílaplan. Þar er ísnum svo dælt linnulaust og er það tryggt að ísþyrstir gestir fái nægju sína.

Starfsmenn Kjöríss líta á Ísdaginn sem einskonar uppskeruhátíð eftir háannatíma ísframleiðslunnar, sumarið, og er allri þjóðinni boðið á hátíðina.

Brögðin sem í boði verða eru ekki af venjulegri endanum. Þar má sem dæmi nefna: tannkremsís, hákarlaís, hundasúruís, álfa ís, doritos ís og svo mætti lengi telja. Gestir Ísdagsins gerast að auki sérlegir íssmakkarar Kjöríss og geta haft áhrif á framleiðsluþróun fyrirtækisins með því að gefa ísunum einkunn.

Skemmtidagskrá verður í Hveragerði á morgun því auk ísáts mun Ingó Veðurguð skemmta lýðnum, Skrímslin verða á ferðinni og Hjalti Úrsus verður með kraftakeppni fyrir kraftakrakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×