Innlent

Dæmi um að fólk veikist í röðinni hjá Mæðrastyrksnefnd

Verkalýðshreyfingin þarf að standa í lappirnar fyrir fólkið í landinu og átta sig á stöðunni sem margir eru í, og stjórnvöld ekki síður. Þetta segir formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Nefndin býr sig og skjólstæðinga undir veturinn og hefur komið upp hituðu tjaldi við úthlutunina, en dæmi eru um að fólk hafi veikst í kuldanum meðan það hefur beðið eftir aðstoð.

Mörg hundruð manns leituðu á náðir mæðrastyrksnefndar og fjölskylduhjálparinnar, meðan góðærið svonefnda stóð sem hæst. En eftir að bankarnir hrundu og atvinnuleysi jókst hefur þeim fjölgað. Og það getur verið enn erfiðara en ella að bíða í langri röðinni, þegar það fer að kólna.

Seglagerðin Ægir útvegaði tjald sem fólk getur hlýjað sér í á meðan beðið er eftir því að fá úthlutun.

„Hér hefur fólk staðið í kulda og trekki og ekki liðið nógu vel," segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

En dæmi eru um að fólk hafi beinlínis veikst þegar það hefur beðið lengi í röðinni.

„Ég býst við mörgum í dag, síðasta miðvikudag komu hingað 550 fjölskyldur. Þær verða ekki færri í dag," segir hún.

Ragnhildur segir að fleiri þurfi að taka þátt í að aðstoða þurfandi fólk. Verkalýðshreyfingin verði að standa í lappirnar og fara að átta sig á því hvaða stöðu fólk sé í.

„Verkalýðshreyfing þarf að sítga fram og vera öflug og taka til sinna ráða. Mér finnst yfirvöld ekki standa sig nógu vel en það má taka það fram að hinn almenni Íslendingur er að hugsa um þá sem líða illa og hefur rétt okkur hjálparhönd og gert þetta starf mögulegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×