Danska kvennalandsliðið í fótbolta endurskrifaði sögu bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta í dag þegar danska liðið vann 5-3 sigur á Bandaríkjunum í Algarve-bikarnum í Portúgal.
Bandaríska liðið tapaði þar með sínum öðrum leik í röð sem hefur ekki gerst síðan 2001 en engu liði hafði hinsvegar áður tekist að skora fimm mörk á móti bandaríska kvennalandsliðinu í opinberum landsleik.
Bandaríska landsliðið var ennfremur búið að spila 43 leiki í röð án þess að tapa þegar þær lágu 0-1 á móti Svíþjóð í leiknum á undan.
Dönsku stelpurnar töpuðu tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu en voru komnar í 3-0 í hálfleik.
Nadia Nadim skoraði tvö mörk fyrir danska liðið í dag og þær Katrine Veje, Johanna Rasmussen og Karoline Nielsen gerðu allar eitt mark hver. Christen Press, Sydney Leroux og Megan Rapinoe skoruðu fyrir bandaríska liðið í seinni hálfleik.
Japan vann riðilinn og spilar til úrslita, Svíar urðu í öðru sæti og Danir í því þriðja. Bandaríska landsliðið fékk aðeins eitt stig í þremur leikjum sínum í riðlinum.
Danska landsliðið er einmitt með Íslandi í riðli í undankeppni HM og verða því erfiðar við að eiga seinna á þessu ári.

