Ein nýjasta bygging Háskóla Íslands er stórskemmd vegna galla í klæðningu hússins. Aðeins fimm ár eru síðan húsið var formlega tekið í notkun. Hvorki innlendir né erlendir aðilar hafa komist að því hvað veldur skemmdunum.
Tólf ár eru síðan hafist var handa við að byggja Öskju, náttúrúfræðihús Háskóla Íslands. Húsið er átta þúsund fermetrar og kostaði á þriðja milljarð íslenskra króna.
Enn er óljóst hvað það er sem veldur skemmdunum en svo virðist sem einhvers konar tæring eigi sér stað á járnklæðningunni.
Að sögn Magga Jónssonar, arkítekts sem hannaði húsið hefur vatn komist undir klæðninguna sem velur miklu ryði. Í samtali við fréttastofu sagði hann að bæði erlendir og innlendir sérfræðingar hefðu skoðað húsið en engar skýringar lægju þó fyrir ennþá.
Tilraunir hafa verið gerðar til að stöðva skemmdirnar. Máling hefur verið tekin af, ryð pússað í burtu og aftur málað. Það er þó ekki útilokað að skemmdirnar komi aftur fram.
Guðmundur R. Jónsson, sviðsstjóri, framkvæmda- og rekstrarsviðs Háskóla Íslands sagði að húsið yrði tekið í gegn næsta sumar og skemmdir lagaðar.