Erlent

Dýr þvergirðingsháttur

Óli Tynes skrifar
Girðingin sem umlukti garð Philips var fagurblá.
Girðingin sem umlukti garð Philips var fagurblá.
Ekkillinn Philip Bowler var ósköp ánægður með bláu rimlagirðinguna sem aðskildi hús hans frá húsi nágrannans. Rimlagirðingin sem umlukti garðinn hans var jú blá. Báðar girðingarnar höfðu verið bláar áratugum saman.

Þegar Glenn og Annette Wallis fluttu í nágrannahúsið vildu þau hinsvegar hafa girðinguna svarta til að hún passaði við útidyrnar þeirra.

Glenn rölti sér því út með málningarbursta án þess að tala við kóng eða prest. Hvað þá Philip. Því vildi Philip ekki una og reyndi að útskýra málið fyrir Glenn. Glenn sagði honum að fara í rass og rófu.

Þess í stað fór Philip til lögfræðings. Lögfræðingurinn reyndi að útskýra málið fyrir Glenn. Glenn sagði honum að fara í rass og rófu.

Þess í stað fór lögfræðingurinn með málið fyrir dómstóla. Dómarinn sagði að Philip hefði rétt fyrir sér. Glenn sagði dómaranum að fara í rass og rófu.

Þess í stað fór málið fyrir æðra dómstig. Sá dómari sendi mann með málband á staðinn.

Hann komst að því að girðingin var örlítið vinstramegin við miðlínu milli húsanna. Semsagt á lóð Philips.

Girðingin á milli húsanna er nú aftur orðin blá. Og já, meðan ég man; Glenn fékk að borga allan málskostnað. Ellefu milljónir króna.

Og já, meðan ég man; girðingin var tveir metrar. Glenn fékk því að borga fimm og hálfa milljón króna fyrir hvorn metrann af fagurbláu girðingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×