Innlent

Efast um að til sé lagastoð fyrir úthlutun hlutabréfa í Landsbankanum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Nýlega var tilkynnt að starfsmenn Landsbankans myndu eignast tæplega eins prósenta hlut í bankanum og nemur hlutur þeirra sem verið hafa í fullu starfi síðastliðin fjögur ár allt að fernum mánaðarlaunum, eftir skatta. Hlutabréfunum er úthlutað samkvæmt samningi sem gerður var við kröfuhafa bankans árið 2009, en þeir vildu að starfsmenn fengju hvata til að hámarka verðmæti skuldabréfa sem óvissa var um heimtur á. Skattalegt verðmæti hlutabréfanna er 4,7 milljarðar króna.

Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar og situr jafnframt í nefnd um hagræðingu í opinberum fjármálum. Hún efast um réttmæti úthlutunarinnar. „Ég velti fyrir mér hvort það sé einhver lagastoð fyrir þessu því þetta lítur út fyrir að vera nokkurs konar gjafagjörningur. Það er alveg klárt í fjárlögum að þegar á að selja ríkisfyrirtæki eða hluta úr ríkisfyrirtækjum þá þarf að fara slík heimild í gegnum þingið,“ segir Vigdís.

Hún segir óeðlilegt að hægt sé að ráðstafa eigum ríkisins með þessum hætti. „Og svo er náttúrulega sorglega hliðin á þessu öllu saman að þetta byggist upp á þessu kaupaukakerfi og hverjir hafa orðið fyrir barðinu á því að Landsbankinn fái allar sínar endurheimtur upp í topp? Það eru skuldug heimili og landsmenn sem jafnvel er búið að bera út af heimilum sínum þannig að það eru harkalegar innheimtuaðgerðir sem liggja að baki þessum upphæðum.“

Vigdís segir gjörninginn siðlausan og segir ekki koma til greina að taka upp kaupaukakerfi í fyrirtækjum eða stofnunum á vegum ríkisins. „Alls ekki, því að ríkið er til þess að reka sjálft sig en ekki til þess að umbuna fólki sem vinnur hjá því á annan hátt en segir til um í kjarasamningum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×