Innlent

Efnasameind skyld karríkryddi hugsanlega lækning við Alzheimer

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Alzheimer.
Alzheimer.
Tilraunir með nýtt lyf við Alzheimer-sjúkdómnum fylla vísindamenn von um að geta stöðvað sjúkdóminn og bætt minni sjúklinga sem þjást af völdum hans.

Lyfið er í þróun hjá Salk-rannsóknarstofnuninni í Bandaríkjunum og hefur það þegar stöðvað framgöngu sjúkdómsins í músum. Ekkert lyf sem nú er á markaði hefur sömu virkni og þetta nýja lyf svo vitað sé. Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum segir rannsóknina mjög athyglisverða.

"Það er verið að horfa á efnasameind sem er afleidd af karríkryddi og hefur taugaverndandi og fjölþætt áhrif á miðtaugakerfið í rannsóknarmódelum. Þannig að hér er um að ræða algjörlega nýja nálgun varðandi Alzheimer-sjúkdóm," segir Pálmi.

Talið er að lyfið geti einnig nýst til að stöðva aðra aldurstengda taugahrörnunarsjúkdóma.

"Nálgunin er sú að horfa á verndun miðtaugakerfisins og örvun á nývexti. Hugmyndin er að varðveita taugasímana þar sem taugafrumurnar tala við hver aðra," bætir Pálmi við.

Raunar hefur lyfið einnig bætt minni þeirra músa sem ekki höfðu verið smitaðar af Alzheimer í þágu vísindanna. Stutt er í að leyfi fáist til að nota það á fólk í tilraunaskyni en óvíst er hvort það hefur sömu áhrif á fólk og það hefur á tilraunadýrin. Reynist lyfið vel telur Pálmi að það muni líða sjö til tíu ár þar til það fer í sölu en það væri stórt skref fyrir mannkynið.

"Það er verið að sýsla með meðul sem hugsanlega hafa væg áhrif á einkenni en ekkert sem breytir náttúrusögunni en það er það sem okkur vantar og þess vegna eru svona rannsóknir gríðarlega mikilvægar," segir Pálmi að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×