Lífið

Eftirminnilegt og ævintýralegt upphaf í leikhúsinu

Sigurður Þór Óskarsson hefur fengið ævintýralega byrjun á leikaraferli sínum en hann hoppar inn í hlutverk fuglahræðunnar í Galdrakarlinum í Oz.
Sigurður Þór Óskarsson hefur fengið ævintýralega byrjun á leikaraferli sínum en hann hoppar inn í hlutverk fuglahræðunnar í Galdrakarlinum í Oz. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta er búið að vera hrikalega skemmtilegt og gaman að fá að vera með í þessu," segir leiklistarneminn Sigurður Þór Óskarsson en hann hefur undanfarið fengið góða reynslu af leikhúsheiminum sem afleysingamaður í leikritinu Galdrakarlinn í Oz.

Sigurður Þór leysti leikarann Hilmar Guðjónsson af hólmi um seinustu helgi og hoppaði þar inn í hlutverk fuglahræðunnar, en Hilmar þurfti að skjótast á Kvikmyndahátíðina í Berlín til að taka við Shooting Star verðlaununum.

Sigurður fékk tvær vikur til að undirbúa sig fyrir hlutverkið og segist hafa legið yfir handriti og DVD upptökum af leikritinu. „Jújú, mér var bókstaflega hent út í djúpu laugina. Ég held að ég hafi horft á leikritið 20 sinnum. Ég notaði svo kvöldin í handritalestur, fékk eina æfingu með danshöfundinum og eina með leikhópnum," segir Sigurður en hann stundar nám við leiklistardeild LHÍ og útskrifast í vor.

Fyrstu sýning Sigurðar fyrir viku síðan var heldur betur eftirminnileg en Halldór Gylfason leikari lenti í kröppum dansi er hann féll niður um lúgu á sviðinu í miðri sýningu og meiddist. Stöðva þurfti sýninguna og leikstjórinn, Bergur Ingólfsson, hljóp í skarðið fyrir Halldór, sem þurfti að fara upp á spítala. „Þetta var mikið sjokk og ég dáist að fagmannlegum viðbrögðum allra við áfallinu. Sýningin gekk vel þrátt fyrir alltsaman," segir Sigurður og óhætt að fullyrða að hans fyrsta sýning í atvinnuleikhúsi hafi verið ævintýraleg en hann fór aftur með hlutverk fuglahræðunnar um liðna helgi sökum meiðsla Halldórs. Hilmar Guðjónsson var þá huglausa ljónið.

„Ég er eiginlega bara skítstressaður að kveðja fuglahræðuna því þetta er búið að vera svo gaman og mér hefur verið tekið vel af öllum. Ég get eiginlega ekki beðið eftir að byrja næsta haust og veit að það eru skemmtilegir tímar framundan," segir Sigurður en ekki er langt þangað til hann kemst á svið í Borgarleikhúsinu á ný þar sem hann hefur þegar fengið fastráðningu þar eftir útskriftina í vor.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.