Skoðun

Ég elska ykkur öll

Óttar Martin Norðfjörð skrifar
Ég vaknaði í morgun með óstjórnlega þörf til að segja ykkur svolítið: Ég elska ykkur öll.

Ég elska ykkur sem eruð ósammála mér um allt, og ég elska ykkur sem eruð sammála mér um allt. Ég elska ykkur sem eruð útlensk og ég elska ykkur sem eruð íslensk; alíslensk, hálfíslensk, ¼ íslensk eða pínkulítið íslensk – ég elska ykkur öll.

Ég elska ykkur sem eigið stutt eftir, ég elska ykkur sem voruð að fæðast og eigið allt lífið framundan. Ég elska ykkur sem eruð nýkomin og ykkur sem eruð nýfarin. Þið eruð öll yndisleg.

Ég elska ykkur þótt þið búið í útlöndum og ég elska ykkur þótt þið búið á Íslandi, ég elska útlendinga á Íslandi og ég elska Íslendinga í útlöndum, ég elska líka útlendinga í útlöndum og Íslendinga á Íslandi, því ég elska ykkur öll.

Ég elska fólkið í miðbænum og ég elska fólkið í úthverfunum og ég elska líka fólkið úti á landi og úti á sjó og alla hina sem ég er að gleyma. Ég elska kettina, hundana, kanínurnar, fuglana, hestana, beljurnar og öll hin dýrin, líka þessi sem fáir elska, eins og mávana og rotturnar og köngulærnar – ég elska ykkur öll.

Og síðast en ekki síst, ég elska ykkur sem eruð öðruvísi en ég, og ég elska ykkur sem eruð alveg eins og ég. Ég elska lesbíur, homma, tvíkynhneigða og transfólk sem heldur hátíð í bæ um þessar mundir. Það eru ekki sjálfsögð réttindi eins og við sjáum víða um heim. Ég get ekki sagt það nógsamlega oft, en ég ætla samt að segja það einu sinni aftur: Ég elska ykkur öll.

Fleira var það ekki. Takk fyrir að lesa.

Hinsegin dagar standa nú yfir. Hin árlega Gleðiganga verður haldin kl. 14 næstkomandi laugardag.




Skoðun

Sjá meira


×