Skoðun

Ég er líka brjáluð!

Margrét María Sigurðardóttir skrifar
Ég vil byrja á því að þakka öllu því flotta unga fólki sem hefur stigið fram á undanförnum dögum til þess að vekja athygli á fordómum og úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna hér á landi. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á besta mögulega heilsufari sem hægt er að tryggja. Auk þess er skylt að tryggja börnum þroskavænleg skilyrði, þannig að þau nái sem bestum andlegum, líkamlegum og félagslegum þroska.

Ljóst er að þessi réttindi eru ekki tryggð hér á landi, en í dag þurfa börn með hegðunar- og geðraskanir oftar en ekki að bíða í marga mánuði eða jafnvel ár eftir greiningu og þjónustu við hæfi. Þetta er langur tími í lífi barns og ef barn fær ekki þjónustu við hæfi án tafar getur það haft alvarleg og varanleg áhrif á þroska þess og heilsu til framtíðar.

Íslenska ríkið brýtur á mannréttindum barnaUmboðsmaður barna hefur ítrekað bent á að íslenska ríkið sé að brjóta alvarlega á mannréttindum barna að þessu leyti, en því miður hefur það haft takmörkuð áhrif. Ég er því óendanlega þakklát að sjá ungt fólk nýta rétt sinn til þess að tjá sig og vekja athygli á því að staða þessara mála hér á landi sé óásættanleg.

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur nú fyrir átakinu Heilabrot, en með því er ætlunin að varpa ljósi á alvarleika málsins og skora á yfirvöld að bregðast við. Þau hafa notað myllumerkið #viðerumbrjáluð sem er að mínu mati vel við hæfi. Ég vil því nota tækifærið til þess að segja að ég er líka brjáluð! Brjáluð yfir því að börnum sé ekki tryggð sú þjónusta sem þau eiga rétt á. Ég skora á heilbrigðisráðherra, Alþingi og aðra opinbera aðila að hlusta á börn og ungmenni og bregðast við þessum vanda sem fyrst.

Ég tek undir með ungmennaráði UNICEF á Íslandi: Börn eiga ekki heima á biðlistum!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×